KR vann þriðja leikinn
KR-ingar lögðu Grindvíkinga að velli í dag, 78:89, í þriðja leik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn, en leikurinn fór fram í Grindavík. Næsti leikur í úrslitarimmunni verður nk. þriðjudag í íþróttahúsi KR í Frostaskjóli, en þá geta KR-ingar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn þar sem þeir eru nú yfir í einvíginu 2-1. Leikurinn var geysispennandi lengst af og einkenndist af gríðarlegri baráttu beggja liða. Grindvíkingar byrjuðu betur og voru 5-8 stigum yfir þar til um 9 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þá tóku KR-ingar forystuna og voru 2-5 stigum yfir fram yfir miðjan síðari hálfleik, þegar Grindvíkingar náðu að jafna. KR-ingar voru þó alltaf skrefi á undan Grindvíkingum í leiknum og voru með feykilega góða hittni í síðari hálfleik, en á tímabili fór nánast allt ofan í. KR-ingar náðu svo stórgóðum endaspretti og náðu að tryggja sér ellefu stiga sigur, 78:89. Alexander Ermolinskij var bestur heimamanna í fyrri hálfleik, en í síðari hálfleik voru það þeir Pétur Guðmundsson og Brenton Birmingham (30 stig) sem báru af. Í liði KR var Keith Vassel bestur (30 stig), en Jonathan Bow átti einnig góða spretti í leiknum.