KR stóðst áhlaup Grindavíkur
Sagan endurtók sig þegar KR vann sterkan sigur á Grindavík í DHL-höllinni í kvöld, 84-82. Leikurinn byrjaði hnífjafn og liðin skiptust á að leiða leikinn fram að lok fyrsta leikhluta þegar KR náði fyrsta alvöru forskoti leiksins.
Grindvíkingar héngu í rassinum á heimamönnum framan af öðrum leikhluta en hægt og rólega seig KR frammúr. Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn 8 stig, 56-48. Heimamenn gáfu ekkert eftir í þriðja leikhluta og leiddu leikinn allt til loka. Það munaði þó ekki miklu á lokasprettinum en gestirnir fengu feiki nóg af tækifærum til að koma sér almennilega inní leikinn en ekki gekk sem skildi. Semaj Inge fór fyrir liði heimamanna með 21 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Næstur á eftir honum kom Fannar Ólafsson með 17 stig og 16 fráköst. Hjá gestunum var Brenton Birmingham stigahæstur með 21 stig og 7 stoðsendingar en næstur á eftir honum kom Þorleifur Ólafsson með 20 stig og 8 fráköst.
Bæði lið mættu nokkuð varkár til leiks og liðin skiptu stigunum bróðurlega á milli sín framan af. Það var jafnt á flestum tölum en þó átti Grindavík oftar en ekki frumkvæðið. Þegar þrjár mínútur voru liðnar stóðu tölur 9-9. Jafnt var á öllum tölum allt fram að lokamínútunum þegar KR skreið frammúr og náði mesta forskoti leiksins með glæsilegu flautu-sniðskoti Ólafs Má Ægissonar, 28-23. Það voru því heimamenn sem leiddu þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta.
KR byrjaði annan leikhluta ágætlega en ekki leið að löngu þar til Grindavík fór að saxa á forskot heimamanna. Þegar fjórar mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta var munurinn kominn niður í 2 stig, 35-33. Grindvíkingar tóku leikhlé stuttu seinna eftir að hafa verið sundurspilaðir af heimamönnum. Ekki hjálpaði að stuttu eftir leikhléið tryllti Semaj Inge áhorfendur í DHL-höllinni með vægast sagt glæsilegri troðslu yfir varnarmann Grindavíkur. Þetta virtist kveikja í heimamönnum sem juku hægt og rólega við forskotið. Þegar rúmlega mínúta var eftir af leikhlutanum höfðu þeir náð 10 stiga forskoti, 53-43. Grindvíkingar náðu lítið að bæta sinn leik það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og þegar flautað var til loka hans var staðan 56-48.
Stigahæstir í hálfleik hjá KR var Semaj Inge með 15 stig og 4 stoðsendingar. Fannar Ólafsson gaf honum ekki mikið eftir með 13 stig og 8 fráköst. Hjá Grindavík voru þeir Brenton Birmingham og Þorleifur Ólafsson með 11 stig hvor.
Það sást strax á upphafsmínútum þriðja leikhluta að gestirnir voru í bullandi vandræðum með sóknarleikinn og KR nýtti sér það. Þegar ein og hálf mínúta var liðin af leikhlutanum höfðu heimamenn skorað 5 stig gegn 0 stigum Grindavíkur og Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindavíkur tók leikhlé. Það virtist þó lítil áhrif hafa á gestina sem höfðu aðeins skorað 2 stig þegar leikhlutinn var hálfnaður,63-50, og voru vægast sagt að láta niðurlægja sig í fráköstunum. KR hafði hirt 30 stykki í leiknum gegn aðeins 13 fráköstum Grindavíkur. Ekki hjálpaði það gestunum að Ólafur Ólafsson var studdur af leikvelli, greinilega sárþjáður, þegar um það bil þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. Það munaði þó um það að þegar Ólafur fór af velli kom Arnar Freyr inná og hreinlega kveikti í liði gestana. Áður en menn vissu af hafði Grindavík skorað 8 stig í röð og munurinn því aðeins 4 stig þegar ein mínúta var eftir af þriðja leikhluta, 66-62. Þegar flautað var til loka leikhlutans hafði KR þó rétt sinn hlut um 2 stig, 68-62.
Þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir tókst Grindavík aldrei að koma sér nægilega vel inní leikinn. KR hleypti þeim aldrei nær en 5-6 stig en þegar fjórði leikhluti var hálfnaður var munurinn einmitt 5 stig, 76-71. Stuttu seinna tók Friðrik Ragnarsson leikhlé fyrir gestina. Grindavík tókst þó að gera leikinn spennandi á lokamínútunum og þegar tæplega tvær mínútur lifðu tók Páll Kolbeinsson leikhlé fyrir KR, 78-73, og boltinn í höndum gestana. Grindavík tóks hins vegar að henda frá sér hverju færinu á fætur öðru en þrátt fyrir það tókst gestunum að setja mikla pressu á heimamenn sem voru sendir á vítalínuna seinustu mínútuna. Þar stóðust þeir þó pressuna og höfðu á endanum tveggja stiga sigur, 84-82.
Texti og mynd: Karfan.is/Gísli Ólafsson