KR sterkari aðilinn allan tímann
Keflavík tapaði fyrir KR í kvöld 5-0 í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu. Leikurinn fór fram á KR-velli í blíðskaparveðri. Leikurinn var fjörugur frá upphafi og voru það heimamenn sem sáu um sóknarboltann. KR skoraði eftir aðeins 5 mínútna leik þegar Hólmfríður Magnúsdóttir skeiðaði upp vinstri kantinn og átti hnitmiðaða sendingu inn í teig. Olga Færseth tók á móti sendingunni og skoraði með föstu skoti, óverjandi fyrir Jelenu Petrovic.
KR sótti án afláts í fyrri hálfleik og aðeins tveimur mínútum eftir að hún skoraði fyrsta markið slapp Olga í gegn en klúðraði dauðafæri ein á móti markmanni. Heimamenn uppskáru sitt annað mark þegar Olga Færseth skoraði úr vítaspyrnu á 28 mínútu.
Eftir það þyngdist róðurinn og pressa KR-inga var mikil en í hálfleik var staðan 2-0 KR í vil.
Fjóla Dröfn Friðriksdóttir skoraði fljótlega eftir að seinni hálfleik hófst og var staðan 3-0. Keflavíkurstúlkur áttu fá færi í leiknum og áttu erfitt uppdráttar fram völlinn. Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði fjórða mark KR á 53 mínútu en hún var stórhættuleg allan leikinn á vinstri kantinum. Olga Færseth náði svo þrennunni sinni þegar hún skoraði fimmta mark KR í uppbótartíma.
Keflavík féll í 4. sætið í Landsbankadeild kvenna í kvöld en Breiðablik, sem var sæti neðar en Keflavík fyrir leik kvöldsins, vann Fylki 0-4 í Árbænum og er með 13 í 3. sæti. Keflavík er með 12 stig í 4.–5. sæti ásamt Stjörnunni.
Næsti leikur Keflvíkinga er gegn Stjörnunni 8. ágúst á Keflavíkurvelli.
VF-mynd/Stefán Þór Borgþórsson – Vesna Smiljkovic að reyna komast framhjá Hrefnu Jóhannesdóttur, leikmanni KR, í leiknum í kvöld.