Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

KR lagði Njarðvík í tvíframlengdum „thriller“
Mánudagur 4. apríl 2016 kl. 22:00

KR lagði Njarðvík í tvíframlengdum „thriller“

Stórfurðulegur og átakanlegur leikur í Vesturbænum

Eftir tvær framlengingar og magnþrungna spennu þurftu Njarðvíkingar að sætta sig við tap gegn KR í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Domino’s deildar karla í kvöld. Hreint ótrúlegur leikur sem endaði með 69:67 sigri heimamanna í Vesturbænum.

Í fyrri hálfleik má segja að leikurinn hafi verið eins og hver annar eðlilegur körfuboltaleikur. Hart barist og sterkur varnarleikur en stigaskorið nokkuð eðlilegt og Njarðvíkingar leiddu 32:39 í hálfleik. Það sem gerðist í síðari hálfleik fer svo líklega í sögubækurnar. Liðin hreinlega gátu varla keypt sér körfu og þá sérstaklega Njarðvíkingar sem skoruðu aðeins sex stig í þriðja leikhluta og átta í þeim fjórða. Þeir hentu boltanum frá sér í gríð og erg og á körflum var pínlegt að horfa upp á þennan slaka körfubolta. Þrátt fyrir að spilamennskan væri með þessum hætti þá voru gestgjafarnir litlu skárri og því var leikurinn æsispennandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Haukur Helgi reyndist tvívegis hetja gestanna þar sem hann jafnaði og sendi leikinn í báðar framlengingarnar. Honum brást hins vegar bogalistin þegar um þrjár sekúndur lifðu af síðari framlenginu, en þá missti hann boltann í síðustu sókninni og KR-ingar klófestu hann og tóku um leið 1-0 forystu í einvíginu. Þessi sería fer vel af stað og verða Njarðvíkingar að teljast klaufar að hafa ekki gert betur í kvöld í algjöru dauðafæri.

Þeir töpuðu boltanum alls 23 sinnum og voru ráðalausir og ragir í sóknarleiknum á löngum köflum í síðari hálfleik. Haukur Helgi bar uppi sóknarleikinn með 26 stig og 15 fráköst, en hann spilaði í 48 mínútur í kvöld líkt og Atkinson sem var með tröllatvennu, 20 stig og 24 fráköst. Þriggja stiga nýtingin hjá skyttum Njarðvíkinga var léleg í leiknum, ef Haukur er undanskilinn, og allt of fáar ferðir á vítalínuna reyndist ansi dýrkeypt fyrir Suðurnesjamenn. Næsti leikur verður á miðvikudag í Njarðvík og er vissara að láta hann ekki fram hjá sér fara.

KR-Njarðvík 69-67 (18-15, 14-24, 12-6, 9-8, 9-9, 7-5)

Njarðvík: Haukur Helgi Pálsson 26/15 fráköst/4 varin skot, Jeremy Martez Atkinson 20/24 fráköst/6 stoðsendingar, Maciej Stanislav Baginski 7, Logi  Gunnarsson 6, Oddur Rúnar Kristjánsson 6, Hjörtur Hrafn Einarsson 2, Snjólfur Marel Stefánsson 0, Gunnlaugur Sveinn Hafsteinsson 0, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Jón Arnór Sverrisson 0, Oddur Birnir Pétursson 0, Ólafur Helgi Jónsson 0.

KR: Michael Craion 27/16 fráköst/3 varin skot, Helgi Már Magnússon 13/7 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 7, Brynjar Þór Björnsson 7/8 fráköst, Pavel Ermolinskij 5/9 fráköst/6 stoðsendingar/3 varin skot, Björn Kristjánsson 5/4 fráköst, Darri Hilmarsson 5/8 fráköst, Ólafur Þorri Sigurjónsson 0, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 0, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Arnór Hermannsson 0, Jón Hrafn Baldvinsson 0.