KR kjöldregið í Keflavík
Keflvíkingar unnu í kvöld sannfærandi og verðskuldaðan heimasigur á meistaraliði KR, 3-1.
KR-ingar byrjuðu af krafti og skoruðu fyrsta mark leiksins eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Þar var á ferðinni Arnar Gunnlaugsson og virtist sem KR væri búið að finna sig eftir slaka frammistöðu gegn FH.
Keflvíkingar voru hinsvegar ekki af baki dottnir og tóku umsvifalaust öll völd á vellinum og héldu þeim til leiksloka. Miðjuspilið var hreint með ólíkindum þar sem Zoran Ljubicic og sérstaklega Stefán Gíslason voru eins og kóngar í ríki sínu. KR komust aldrei neitt áleiðis gegn þeim og sköpuðu sér sárafá marktækifæri.
Stefán og Zoran voru hins vegar sífellt ógnandi með góðum stungusendingum á Hörð Sveinsson og Hólmar Örn Rúnarsson sem gerðu mikinn usla í vörn meistaranna.
Eftir mark gestanna áttu Keflvíkingar tvö ágæt færi, en brutu loks ísinn þegar Stefán skoraði á 24. min eftir hornspyrnu og mikinn hagamgang í vítateignum.
KR-ingar voru þegar þar var komið við sögu búnir að draga sig langt aftur á völlinn og leyfðu heimamönnum að fara sínu fram.
Ekki voru fleiri mörk skoruð fram að hálfleik, en Keflvíkingar áttu nokkur færi áður en flautað var til hlés.
Seinni hálfleikur hófst á sömu nótum, en eftir 2 mín leik var KR ingurinn Gunnar Einarsson heppinn að vera ekki vísað af velli eftir gróft brot, en hann var með gult spjald á bakinu. Dómari leiksins leit framhjá því atviki, en hann hefur eflaust átt betri daga en í kvöld.
KR sýndi af sér lífsmark á 54. mín þegar Ágúst Gylfason átti gott skot úr aukaspyrnu sem var varið á línu.
Keflavík komst loks yfir eftir klukkutíma leik þegar Scott Ramsey skoraði frábært mark úr aukaspyrnu. Færið var um 25 metrar og sveif boltinn lágt yfir jörðinni í gegnum vörnina og framhjá Kristjáni Finnbogasyni í marki KR. Ramsey var í fantaformi í leiknum og kemur óvenju vel undan vetri.
Eftir markið var allur vindur úr KR og yfirburðir heimamanna algjörir. Ramsey og Hólmar komust báðir í ákjósanleg færi áður en Hörður Sveinsson gerði endanlega út um leikinn við lok venjulegs leiktíma. Hörður átti frábæran leik, eins og allt liðið raunar, og var sífellt ógnandi með hraða sínum og á eflaust eftir að vera iðinn við kolann í sumar.
Þjálfari Keflavíkur, Milan Stefán Jankovic, var í skýjunum eftir leikinn, enda hafði hann horft upp á sína menn spila ótrúlega skemmtilegan fótbolta og leggja Íslandsmeistarana.
„Þetta var einn af okkar allra bestu leikjum. Við vorum betri út um allan völlinn, fyrir utan fyrstu tvær mínúturnar. Við sýndum baráttu og spil og strákarnir sýndu að þeir voru hungraðir. Maður er bara stoltur af því að hafa svona leikmenn í liðinu. Þeir mættu með gott lið, menn eins og Arnar Gunnlaugsson og Ágúst Gylfason, en við vorum betra liðið í kvöld. Það er mjög einfalt!“
Keflavík er á toppi deildarinnar eftir tvo leiki og Milan sagðist kunna vel við sig þar. „Við ætlum að halda áfram þar og gera okkar besta.“
VF-myndir/Halldór Rósmundur, Héðinn Eiríksson og Hilmar Bragi.