Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

KR Bikarmeistari: Einstefna í Laugardal
Laugardagur 22. september 2007 kl. 18:55

KR Bikarmeistari: Einstefna í Laugardal

KR er VISA bikarmeistari kvenna í knattspyrnu eftir 3-0 sigur á Keflavík á Laugardalsvelli í dag. KR var mun sterkari aðilinn í leiknum allt frá upphafi til enda og var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi. Keflvíkingurinn og fyrirliði KR, Olga Færseth, lyfti Bikarmeistaratitlinum á loft í leikslok en hún gerði eitt mark fyrir Vesturbæjarliðið í leiknum.

 

KR komst snemma yfir í leiknum með marki frá Olgu Færseth og innan tíðar hafði Hrefna Huld Jóhannesdóttir bætti við öðru marki fyrir KR. Til þess að bæta gráu ofan á svart í leik Keflavíkur varð sóknarmaðurinn Guðný Petrína Þórðardóttir frá að víkja sökum meiðsla. Guðný hefur verið að stríða við meiðsli lungan úr sumrinu en hún er einn sterkasti leikmaður Keflavíkur. Guðný byrjaði inn á í dag en eins og segir varð hún frá að hverfa.

 

KR hafði 2-0 yfir í hálfleik og fátt sem benti til þess að Keflavík gæti rönd við reist.

 

Á 55. mínútu ráku KR-konur smiðshöggið þegar Hrefna Huld Jóhannesdóttir gerði þriðja markið með góðum skalla eftir fyrirgjöf af hægri kanti og yfirburði KR algerir.

 

Keflavík átti í stökustu vandræðum með að komast yfir á varnarhelming KR-inga sem voru mun sterkari og ákveðnari í leiknum í dag. Keflavíkurliðið er vissulega ungt og óreynt og það sýndi sig á Laugardalsvelli í dag.

 

Jelena Petrovic í marki Keflavíkur sá svo til þess að mörkin yrðu ekki fleiri í dag og varði hún oft á tíðum með glæsibrag en allan brodd vantaði í Keflavíkurliðið fram á við. Leikurinn var þó mikil reynsla fyrir ungt og óreynt lið Keflavíkur sem vafalítíð á eftir að leika til bikarúrslita að nýju þegar fram líða stundir.

 

Pumasveitin lét sig ekki vanta á Laugardalsvöll í dag og studdi sitt lið fram í rauðan dauðann og sungu uns sitt lið hafði fengið silfur um hálsinn. Keflavíkurkonur klöppuðu svo stuðningsmönnum sínum lof í lófa í leikslok því þótt KR hafi verið allsráðandi á vellinum var Keflavík sigurvegari í stúkunni.

 

VF-Mynd/ [email protected] - Samheldinn hópur Keflavíkurkvenna bar höfuð hátt í leikslok.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024