KÖRFUKNATTLEIKUR : UNDANKEPPNI KORAC CUP:
London Leopards klassalið á breska vísuSameiginlegt lið Njarðvíkinga og Keflvíkinga, ÍRB, leikur fyrri leikinn gegn breska liðinu Greater London Leopards í undankeppni Korac Cup næstkomandi miðvikudag. Friðrik Ingi Rúnarsson, annar þjálfara ÍRB, sagði andstæðingana mjög líklega ekki hafa miklar áhyggjur af leikjunum gegn ÍRB. „London Leopards hefur á undanförnum árum verið eitt allra besta liðið á Englandi. Á síðasta ári misstu þeir töluvert af leikmönnum og enduðu neðar í töflunni en áður á áratugnum. Í kjölfarið voru gerðar miklar breytingar og mæta þeir nú með því sem næst nýtt lið. Liðin í bresku deildinni mega leika með 5 útlendinga en aðeins tvo í Evrópukeppninni. Þeir eru komnir með nýjan bandarískan bakvörð, Kenya Chapers, sem lék í Austurríki í fyrra og skoraði m.a. 26 stig að meðaltali í Saporta Cup, keppninni sem Falur Harðars tekur þátt í með ToPo í Finnlandi á þessu tímabili. Einn leikmanna þeirra,Robert Youngblood, rúmlega tveggja metra blökkumaður, sem hefur verið einn sterkasti stóri maðurinn á Bretlandi undanfarin ár, átti að fá breskt vegabréf fyrir þetta tímabil en óvíst er hvort svo verður og hefur hann aukinheldur ekki skrifað undir áframhaldandi samning hjá félaginu. Hvort hann verður með eða ekki skiptir Leopard-liðið miklu því án hans verður Ísfirðingurinn fyrrverandi, Mark Quashie í byrjunarliðinu.“Hvaða vonir gerið þið Sigurður Ingimundarson ykkur gegn breska liðinu?„Það er ekki flókið. Við ætlum að kynna íslenskan körfubolta og frábæra stuðningsmenn Keflvíkinga og Njarðvíkinga fyrir breska heimsveldinu. Við gerum þá kröfu að hver einasti leikmaður komi tilbúinn til leiks og að áhorfendur fjölmenni og sýni bretanum hvar Davíð keypti ölið. Allt minna en þúsund brjálaðir Suðurnesjamenn er hneyksli.“Brjálaður sóknarleikurEruð þið búnir að kanna leikaðferðir breska liðsins?„Þjálfari þeirra er yfirlýstur sóknarþjálfari, bandarískur Paul Westhead klóni, ef einhverjir þekkja hann. Hann trúir því einfaldlega lið hans skori fleiri stig en andstæðingarnir. Við erum tilbúnir að mæta þessari leikaðferð með góðri vörn og ég er viss um að fjöldi og gæði skotmanna okkar á eftir að koma honum á óvart.“ „Tuttugu stiga sigur lágmarkskrafa, ekkert annað“Þið ætlið sem sagt að setja pressuna á þá fyrir seinni leikinn í London þriðjudaginn 21. september næstkomandi?„Við ætlum senda þá heim með tuttugu stig á bakinu. Tuttugu stiga sigur er lágmarkskrafa okkar, ekkert annað.“