Körfuboltinn kallaði
- Frá loðnuvertíð í Vestmannaeyjum til Njarðvíkur
Friðrik Erlendur Stefánsson kom til Njarðvíkinga um rúmlega tvítugt. Hefur hann verið sigursæll með liðinu svo ekki sé meira sagt. Nú þegar „Heimakletturinn“, eins og hann er stundum kallaður, er að slaga í 38 árin, er þó kominn tími til þess að segja þetta gott. Miðherjinn stæðilegi hóf tímabilið í haust með það fyrir augum að freista þess að fá lokatækifæri til þess að berjast um titla. Faðir tími og meiðsli hafa hins vegar reynst erfið og því var ákvörðunin tekin um að hætta. Þegar blaðamaður Víkurfrétta náði tali af Friðriki var hann nýbúinn að spila einn-á-einn við stórsöngvarann Sverri Bergmann. Ætli það hafi ekki verið síðasti leikurinn á ferlinum.
Var sáttur við að hætta
Friðrik hætti áður körfuboltaiðkun árið 2011 og hann var satt best að segja nokkuð sáttur við það. „Ég var alveg fínn, ætla ekkert að ljúga að þér með það. Það vantaði svo stóran varamann og ég sló aftur til. Maður fer svo bara aftur að æfa eins og maður sé 25 ára ennþá og slakar lítið á.“ Friðrik segir að eftir tímabilið í fyrra hafi hann ekki verið alveg sáttur og viljað meira. Hann sá að mikið bjó í ungu strákunum í Njarðvík. Því átti að taka tímabilið núna með trompi. Skrokkurinn var hins vegar á öðru máli.
Var á leið í handboltann
Friðrik hóf ferilinn í heimabænum Vestmannaeyjum þar sem hann fékk fljótlega tækifæri með unglingalandsliði Íslands, enda stórir og sterkir strákar ekki á hverju strái. Hann tók svo þá ákvörðun að reyna fyrir sér í höfuðborginni og varð KR þar fyrir valinu. Hann fór eftir það á svolítið flakk. Þá stóð til boða að fara til Ísafjarðar að spila og Friðrik stökk á það tækifæri. „Það var enn eitt flippið og gerðist bara fyrir röð tilviljana.“ Friðrik lék þar með KFÍ í 1. deild en bauðst svo að fara til Þórs Akureyri þar sem hann hugðist reyna fyrir sér í úrvalsdeildinni. Atvinnuástandið var ekki sem best fyrir norðan á þeim tíma svo Friðrik fór á æskuslóðirnar þar sem loðnuvertíð og handbolti tóku við. „Þar datt ég inn í handboltann aftur og var á leið til Svíþjóðar með liði ÍBV í æfingaferð. Þorbergur Aðalsteinsson fyrrum landsliðsþjálfari var þarna með liðið,“ rifjar Friðrik upp og hlær. Þá kom aftur símtal frá Ísafirði þar sem óskað var eftir starfskröftum Vestmannaeyingsins stóra. Þrátt fyrir að kunna ágætlega við handboltann kallaði körfuboltinn á Friðrik. Þar fór boltinn að rúlla og Friðrik vakti athygli fyrir vasklega framgöngu sína. Eftir eitt ár með KFÍ í úrvalsdeild kom tilboð frá Bandaríkjunum. Háskóli í Jacksonville, Flórída, vildi fá Friðrik í sínar raðið og var hann spenntur fyrir því. Það gekk hins vegar ekki upp af ýmsum ástæðum.
Hafði alltaf haldið með Njarðvík
Njarðvík var lið sem Friðrik hafði hug á að leika með. „Ég hafði alltaf haldið með þeim þegar ég var yngri. Við Palli Kristins vorum líka miklir vinir í gegnum unglingalandsliðin.“ Önnur lið vildu ólm fá miðherjann enda var hann þarna einn efnilegasti leikmaður landsins. „Ég hef bara alltaf fylgt minni sannfæringu. Oft getur það verið djöfuls vitleysa hjá manni. Maður hefði kannski átt að elta peningana einhvern tímann,“ segir Friðrik um þá ákvörðun að fara til Njarðvíkur á sínum tíma. Það átti hins vegar eftir að reynast ágætis ákvörðun hjá honum.
Fór í starfsnám til Finnlands
Friðrik segir að af og til hafi komið tilboð um tækifæri í atvinnumennsku auk þess sem önnur íslensk lið hafi viljað hann. Friðrik reyndi fyrir sér í Finnlandi um stutta stund en það segir hann einfaldlega hafa verið algjört klúður. „Ég var þarna á starfssamningi í stutta stund,“ segir miðherjinn kíminn. „Þar var enginn peningur og snarvitlaus þjálfari. Tóm veitleysa bara,“ segir Friðrik og hlær.
„Ef ég hefði samt talað um að eiga svona feril í körfubolta þegar ég var að slá úr tækjunum á loðnuvertíð í Vestmannaeyjum, þá held ég að fólk hefði talið mann vera eitthvað klikkaðan,“
Þegar Friðrik lítur yfir farsælan feril hjá Njarðvík er þar margs að minnast. „Það fór m.a. fram risastór bikarúrslitaleikur árið 99’ þegar Hemmi [Hauksson] rölti aðeins og smellti þristi til þess að jafna leikinn,“ rifjar hann upp. Allir titlarnir sem unnust eru eftirminnilegir en tímabilið 2005-2006 var sérstaklega eftirminnilegt að sögn Friðriks. „Það var mitt besta tímabil. Þá var ég fyrirliði og við vorum með virkilega flottan hóp. Þarna voru ungir guttar í bland við okkur sem vorum leiðtogar í liðinu. Þarna voru sérstaklega margir góðir varnarmenn. Ég hef reyndar verið heppinn með að hafa haft góða varnarmenn með mér í Njarðvík, það eru mikil forréttindi.“ Aragrúi leikmanna hafa orðið á vegi Friðriks á ferlinum. Margir hverjir ansi eftirminnilegir persónuleikar. „Fyrsta nafnið sem skýst upp í hausinn á mér er Örlygur heitinn. Svo gæti ég haldið áfram endalaust, þetta eru allt eintómir snillingar. Þetta eru allt toppmenn hérna í Njarðvík.“
Alltaf tilbúinn að spila fyrir þjóðina
Friðrik á 112 landsleiki að baki og þykir það mikill heiður. Hann hefur sterkar skoðanir á landliðinu og rekstri þess. „Það er til háborinnar skammar hvernig ríkið kemur fram við mörg landslið okkar. Maður er þó alltaf tilbúinn að spila fyrir Ísland. Það er mesti heiður sem manni hlotnast. Það á líka að vera búið þannig að því að þú eigir að vera stoltur að spila fyrir þjóðina.“
Friðrik verður alltaf talinn meðal bestu íslensku miðherjanna en hann hefur barist við þá nokkra góða. „Á tímabili áttum við nokkra ansi frambærilega miðherja. Það var alltaf erfitt að spila gegn Fannari Ólafs og Hlyni Bærings. Svo var leiðinlegt að spila gegn Palla Kristins þegar hann fór til Grindavíkur.“
Þú getur ekki verið annað en sáttur með ferilinn, er það nokkuð? „Jú maður er sáttur. Ég er samt það mikill keppnismaður að maður er aldrei sáttur. Ég er alveg fáránlega tapsár,“ segir Friðrik og hlær. „Það eru hlutir sem svíða þegar maður horfir yfir ferilinn. Ef ég hefði samt talað um að eiga svona feril í körfubolta þegar ég var að slá úr tækjunum á loðnuvertíð í Vestmannaeyjum, þá held ég að fólk hefði talið mann vera eitthvað klikkaðan,“ segir Friðrik að lokum.