Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

 Körfuboltastjarna verður golfkennari GS - opinn dagur í Leiru fimmtudag fyrir 5.-10 bekk
Miðvikudagur 1. júní 2011 kl. 09:56

Körfuboltastjarna verður golfkennari GS - opinn dagur í Leiru fimmtudag fyrir 5.-10 bekk

„Nýja starfið er mjög spennandi og leggst vel í mig. Þetta er bæði tækifæri og áskorun í senn,“ segir Erla Þorsteinsdóttir, nýráðin golfkennari hjá Golfklúbbi Suðurnesja. Erla er fyrrverandi körfuboltastjarna úr Keflavík en nú hefur hún tekið við sem golfkennari GS við af Karen Sævarsdóttur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Golfkennarastarf Erlu hjá GS ber reyndar stærri titil, íþróttastjóri, því hún hefur yfirumsjón með allri þjálfun hjá félaginu. Erla var lengi einn af lykilmönnum Keflavíkur í kvennakörfunni og vann marga titla með félaginu. Hún hefur þó frá unga aldri einnig leikið golf en ákvað svo að fara í golfkennaranám sem kennt er hjá PGA golfkennarasamtökunum á Íslandi.

Hvernig er starfi íþróttastjóra GS háttað og hvernig sérðu fyrir þér framtíðina hjá GS?
„Starf íþróttastjóra GS er margþætt. Ég sé um barna- og unglingastarfið ásamt afreksstarfinu fyrir klúbbinn. Þar að auki verð ég með námskeið og einkakennslu fyrir félagsmenn. Það verður margt í boði í sumar eins og t.d. námskeið fyrir börn á aldrinum 7-12 ára, námskeið fyrir byrjendur, golfnámskeið fyrir konur ásamt kennslu í stutta spilinu og margt fleira.
Þann 2. júní kl. 14.00-16.00 verður Golfklúbbur Suðurnesja með þá nýjung að hafa opinn dag fyrir börn og unglinga í 5.-10. bekk. Þarna er kjörið tækifæri fyrir áhugasama að kynna sér golfíþróttina. Það er mikill hugur í GS mönnum, áhuginn er mikill og mikil gróska í þessari skemmtilegu íþrótt. Það verður nóg um að vera í Leirunni í sumar,“ segir Erla sem mun auk kennslunnar leika golf þegar tími gefst til.

Erla er kennari í Holtaskóla í Keflavík og þessar myndir voru teknar af henni með hressum krökkum í vikunni. Kannski eiga einhverjir þeirra eftir að hitta Erlu á golfvellinum.