Körfuboltastjarna í Keflavík
Keflvíkingar unnu fjóra bikartitla á bikarhelgi yngri flokka í körfu í Toyota höllinni í Keflavík um síðustu helgi. Körfuknattleiksmaður helginarinnar var án efa hin unga og bráðefnilega Eva Rós Guðmundsdóttir en hún var kjörin besti maður leiksins í tveimur leikjum sem hún var með í. Ljóst er að þarna eru allar líkur á að ný körfuboltastjarna sé í uppsiglingu úr gríðar stórum hópi ungra leikmanna á Suðurnesjum.
Eva vann fyrst með 9. flokki þegar Keflavík lagði Njarðvík 75-41 sl. sunnudagsmorgun. Þar tók hún 23 stig, tók 18 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og valin besti maður leiksins.
Síðar sama dag gerði hún sér lítið fyrir og var aftur kjörinn besti maður leiksins þegar Keflavík b vann Njarðvík 71-51. Þá var Eva aftur með um þriðjung stiga liðsins eða 23 stig, 20 fráköst og 5 stolna bolta í öruggum sigri Keflavíkur. Samtals gerði hún því 46 stig og tók 38 fráköst í tveimur leikjum og skilaði einnig góðum tölum í öðrum tölfræðiþáttum íþróttarinnar.
Keflavík vann tvo aðra titla, í unglingaflokki karla og 10. flokki kvenna. Njarðvík vann í 10. flokki karla en liðið vann KR í úrslitaleik 77-53. Valur Orri Valsson var stigahæstur Njarðvíkinga með 20 stig og var valinn besti maður leiksins. Hann er líkt og Eva Rós einn af þessum ungu efnilegu körfuboltamönnum á Suðurnesjum.
Mynd karfan.is: Eva Rós var valin besti maður leiksins í tvígang um síðustu helgi.