Körfuboltahátíð í Reykjanesbæ í Duushúsum
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar og Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð(MÍT) hafa ákveðið að heiðra meistara Keflavíkur og UMFN í körfubolta fyrir frábæran árangur á síðustu misserum miðvikudaginn 20. apríl klukkan 18:00 í Duushúsum, Duusgötu 2.
Keflavík varð Íslandsmeistari í karla- og kvennaflokki í körfuknattleik árið 2005 þriðja árið í röð. UMFN urðu bikarmeistarar á árinu og 10. flokkur drengja hefur náð frábærum árangri í nær óslitinni sigurgöngu. Að auki tók metfjöldi eða 850 krakkar þátt í árlegu Samkaupsmóti í Reykjanesbæ og var skipulagning öll til fyrirmyndar. Af þessu tilefni hefur verið boðað til körfuboltahátíðar í Duushúsum, Duusgötu 2, miðvikudaginn 20. apríl næstkomandi kl.18:00 þar sem veittar verða viðurkenningar til þeirra sem hlutu meistaratitla og greiðsla úr Íþróttasjóði MÍT. Að auki fá viðurkenningar unglingaráð
körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og UMFN og 10. flokkur UMFN.
Leikmenn allra meistaraliðanna munu árita körfubolta sem gefinn er af KKÍ og mun verða geymdur í glerkassa sem hluti af Íþróttaminjasafni Reykjanesbæjar.
Að lokinni athöfn tekur við lokahóf KKÍ sem haldið verður í Stapa kl. 19:00. Gert er ráð fyrir að dagkrá ljúki um kl. 18:45.
Vf-mynd: 10. flokkur drengja í Njarðvík hafa náð frábærum árangri í nær óslitinni sigurgöngu.