Körfuboltagoðsagnir snúa aftur á parketið í kvöld
Það verður sannkallaður stórleikur í Toyota-höllinni í kvöld kl. 19:15 þegar Keflavík-B tekur á móti ÍG í fyrstu umferð í Powerade-bikarkeppni KKÍ. Fjölmargar goðsagnir leika fyrir Keflavík-B í kvöld og má þar helst nefna Guðjón Skúlason, Albert Óskarson, Gunnar Einarsson, Sigurð Ingimundarson og Sverrir Þór Sverrisson.
„Þetta er hópur af goðsögnum úr íslenskum körfubolta. Það er búin að vera ein æfing og svo er leikur - við þurfum ekkert meira. Þessir strákar eru í ágætu formi og ég gaf þeim öllum einka.is bol þannig ef bumban er eitthvað fyrir þeim þá vita þeir hvert þeir eiga að leita,“ segir einkaþjálfarinn Gunnar Einarsson fílhraustur.
Hann kveðst ekkert smeykur við að mæta liði ÍG frá Grindavík sem leikur í annarri deildinni. „Við skoðum ekkert andstæðinginn. Mættum bara til að vinna. Það eru fæddir sigurvegar sem spila fyrir þetta lið og með stórt Keflavíkurhjarta. Það er mikil gulrót að ef við komumst áfram þá fáum við Njarðvík í Toyota-höllina. Við tökum kannski tvær æfingar fyrir þann leik.“