Körfuboltaævintýri keflvískrar fjölskyldu á Tenerife
Tækifæri tengd körfubolta hefur leitt keflvíska stórfjölskyldu á vit nýrra ævintýra í öðru landi. Hjónin Sylvia Færseth og Guðjón Vilhelm fyldu Ásdísi Lilju, fimmtán ára dóttur sinni sem fékk boð um að æfa körfubolta á eyjunni Tenerife og tóku yngri son sinn með sér.
Hvar eruð þið fjölskyldan eða hluti af henni núna?
Við búum í höfuðborg Tenerife, Santa Cruz ásamt honum Þór, yngsta guttanum okkar. Ásdís Lilja býr í litlum bæ rétt fyrir utan Santa Cruz sem heitir San Andrés.
Hvernig kom það til að þið fluttuð út?
Ásdís Lilja fór æfingaferð til Tenerife ásamt liðsfélögum sínum hjá körfuknattleiksdeild Keflavíkur í sumar, þau æfðu og kepptu með liðum hér í Santa Cruz. Síðan í lok september hafði liðið CB Tenerife Central samband við okkur og vildu kanna hvort hún hefði áhuga á því að koma til Tenerife til þess að æfa og spila körfubolta með þeim núna í vetur. Þetta var einstakt tækifæri sem ekki öllum býðst og Ásdís vildi alls ekki láta þetta framhjá sér fara. Guðjón flaug út með stelpunni í byrjun október og áætlaði að vera með henni fyrstu vikuna. Þrátt fyrir að allt hafi farið vel af stað og okkur leið vel með þær aðstæður sem Ásdís var í, átti mamman erfitt með að skilja stelpuna eftir á framandi slóðum.
Ég stakk upp á því að hann myndi framlengja um nokkra daga, það þurfti ekki að snúa mikið upp á hendina á Guðjóni sem framlengdi en nokkrum dögum seinna vorum við búinn að leigja húsnæði fyrir veturinn. Ég og yngsti guttinn okkar, Þór, vorum komin út um tveimur vikum seinna.
Við sáum þetta sem kjörið tækifæri fyrir okkur og yngsta guttann til að læra nýtt tungumál og að kynnast nýrri menningu. Okkar vinna er þannig að við getum unnið hana þar sem er nettenging og símsamband. Þannig að þetta var svona „af hverju ekki?“ skyndiákvörðun.
Hvernig gengur ungu dömunni í körfuboltanum og hvernig eru aðstæður?
Ásdísi Lilju gengur vel og er mjög einbeitt á að stunda körfuboltann hérna úti, enda körfubolti verið eitt af hennar aðaláhugamálum frá því hún fór á sína fyrstu æfingu hjá Keflavík.
Það hefur verið tekið vel á móti henni hérna úti á öllum stöðum og henni líður mjög vel á æfingum. Hún æfir á hverjum degi og planið hennar sett upp bæði sem liðsæfingar, styrktaræfingar og einstaklingsæfingar sem bæta hana í þeim þáttum sem hún þarf að bæta. Hún æfir með stelpum sem eru ári eldri en hefur fengið að mæta á æfingar með meistaraflokki félagsins líka sem henni finnst mjög skemmtilegt.
Það er mikið keppt hérna úti. Tvennskonar keppni er í gangi. Ein sem fer fram innan eyjunnar og síðan önnur sem er á milli eyjanna. Þannig að hún hefur ferðast mikið og er það frábær upplifun. Það fer mikill tími í körfuboltann hérna úti sem er frábært, það var nákvæmlega það sem hún vildi. Lífið hennar er skóli og körfubolti, það er ekki mikill frítími hjá henni en þegar hann er þá nýtir hún hann til að slaka á í sólinni.
Hvað er körfubolti stór íþróttagrein þarna úti?
Ég veit að þetta er önnur stærsta íþróttagreinin sem er stunduð hér. Einnig við fyrstu sýn þá virðist þetta vera frekar stórt því það eru mörg félagslið bæði á Tenerife og eyjunum hér í kring. Sem dæmi keppir Ásdís Lilja einn eða tvo leiki hverja helgi, bæði innan Tenerife og á eyjunum hér í kring, m.a. gegn núverandi Spánarmeisturum frá Grand Canaria.
Nokkur meistaraflokkslið á eyjunum keppa í efstu deild á Spáni og eins og flestir vita þá er spænska deildin mjög sterk. Eyjarnar eiga marga landsliðsmenn og -konur bæði í yngri flokkum og elstu flokkunum.
Hvernig hafið þið komið ykkur fyrir og hvernig gekk það?
Þetta gekk allt mjög hratt fyrir sig en við erum svo heppin að eiga hana Lidiu Mirchandi Villar að, en hún er þjálfari hjá Körfuknattleiksdeild Keflavíkur. Hún er fædd og uppalin hér í Santa Cruz og hún veitti okkur ómentanlega aðstoð við að finna íbúð, skóla, tryggingar og alla þessa grunnþætti sem við þurftum, meira að segja systur hennar eru tilbúnar ef það er eitthvað sem okkur vantar. Einnig hefur Mauri sem er þjálfari Ásdísar hérna úti verið okkur innan handar og farið með okkur í alla pappírsvinnuna á opinberum stofnunum. Kerfið hérna úti er ekki orðið eins rafrænt eins og heima og einnig er ætlast til að það sé töluð spænska þegar mætt er á opinberar stofnanir hérna í Santa Cruz. Þannig að hafa Mauri hefur verið frábært fyrir okkur sem erum að reyna að klöngrast í gegnum Duolingo til að læra spænskuna. Þetta hefur allt gengið eins og í sögu þar sem við höfum verið heppin og fengið aðstoð í hverju skrefi sem við höfum þurft að taka.
Hvað með skóla fyrir börnin?
Ásdís býr á skólavist og stundar nám hérna rétt fyrir utan Santa Cruz í litlum fiskibæ sem heitir San Andrés, einnig býr hún þar um helgar heima hjá þjálfaranum sínum, konunni hans og litla tveggja ára syni þeirra Emanuel, sem hefur tekið Ásdísi eins og systur. Hann spyr mikið um hana þegar hún er á skólavistinni. Við vildum alls ekki skemma þessa lífsreynslu fyrir henni, að takast á við nýjar aðstæður, bara vera til staðar nálægt ef hún þyrfti á okkur að halda. Þannig að ákveðið var þegar við fluttum að þetta fyrirkomulag hjá henni myndi haldast þó við værum flutt út. Hún kíkir oft á okkur og gistir eina og eina nótt. Í skólanum hennar er eingöngu töluð spænska þannig að þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt en hún hefur tæklað þetta með jákvæðu hugafari og er enn með bros á vör. Spænskan er smám saman að koma hjá henni.
Þór er í skóla sem heitir Luther King og er staðsettur í La laguna sem er bær hér rétt fyrir ofan Santa Cruz. Lidia benti okkur á þennan skóla og eftir að hafa skoðað hann leist okkur mjög vel á hann. Í skólanum er lögð áhersla á tungumál og enska mikið töluð. Við sáum það sem frábæran kost því Þór talar ensku og þetta hefur hjálpað honum strax frá fyrsta degi. Hann fær líka auka kennslu í spænsku í skólanum sem er sett upp fyrir börn með annað móðurmál en spænsku.
Við fórum með honum að skoða skólann áður en hann byrjaði, eitt af því sem við þurftum að gera var að kaupa skólabúningana, það eru sem sagt tvö sett af fötum, annað sem notað er á dögum þegar íþróttir eru á dagskránni sem samsett er af bol og stuttbuxum en þegar heitfengi drengurinn okkar sá formlega búninginn féllust honum hendur, hann horfði á síðbuxurnar, bolinn, peysuna og brúnu leðurskóna og sagði bara: „Ég kafna úr hita“, enda einn af þeim sem vill helst fara út í stuttbuxum í frostinu heima á Íslandi.
Með fiðring í maganum fór hann í skólann fyrsta daginn í nýja skólabúningnum en kom svo skælbrosandi heim og sagði okkur að dagurinn hefði verið frábær. Hann var strax búinn að kynnast nýjum vinum þar sem þau tala mörg ensku. Svona hefur hver dagur verið hjá honum, námið er sett skemmtilega upp með mikilli útiveru og hreyfingu sem hentar okkar manni vel. Eftir skóla fer hann á körfuboltaæfingar á skólalóðinni en æfingarnar fara fram utandyra. Dagarnir hans eru mjög langir. Hann fer héðan kl. 07:00 að morgni með skólarútinni og er sóttur kl. 18:30 á æfingarnar, en það hefur engin áhrif á hann þar sem honum finnst mjög skemmtilegt í skólanum og hlakkar til að fara á hverjum degi í skólann.
Hvað ætlið þið að vera lengi þarna úti?
Við höfum ekki planað lengra fram í tímann en fram í júní, við tökum þetta ferðalag bara dag fyrir dag. Eins og staðan er núna erum við alsæl með þessa ákvörðun, borgin er frábær og öllum líður vel hérna í sólinni.
Hvernig verða jólin í ár?
Þegar Ásdís fékk samninginn þá vissum við fljótt að hún kæmist ekki heim um jólin og þá fórum við strax í það að leita eftir húsnæði til að halda upp á jólin á Tenerife. Við heldur betur fundum það, eina breytingin var að leigutíminn fór frá einum mánuði í átta mánuði.
Tvær elstu stelpurnar okkar verða að vinna um jólin heima á Íslandi en þau tvö sem ekki eru að vinna koma út til okkar með íslenskan jólamat sem er auðvita ómissandi um jólin. Það hefur verið skrítið síðustu daga að sitja hérna úti í 25 gráðu hita og hlusta á jólalögin sem óma um allt núna. Við erum staðráðin í því að halda gleðileg jól hérna á Tenerife.“