Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Körfuboltaæfingar yngri flokka UMFN hafnar
Miðvikudagur 5. september 2007 kl. 10:43

Körfuboltaæfingar yngri flokka UMFN hafnar

Körfuboltaæfingar yngri flokka UMFN hófust í gær þriðjudaginn 4.september þegar vetrartaflan tók formlega gildi. Í vetur munu iðkendur UMFN æfa í Íþróttamiðstöð  Njarðvíkur auk þess sem nýtt Íþróttahús við Akurskóla mun opna nú á allra næstu dögum og verða æfingar þar að auki. 

 

Mikil fjölgun íbúa í Innri-Njarðvík og á gamla Vallarsvæðinu hefur gjörbreytt öllu starfinu og er ljóst að umtalsverð aukning mun verða á iðkenda fjölda hjá körfuknattleiksdeildinni. Í ljósi þessa hefur deildin fjölgað æfingatímum og fært fjölda tíma yfir í Akurskóla til þess að koma til móts við iðkendur í hinu ört stækkandi hverfi í Njarðvíkunum. Allir iðkendur sem borga æfingagjöldin á réttum tíma ( Þ.e.a.s fyrir 1. okt. n.k. ) fara í lukkupott þar sem dregið verður um glæsilega vinninga þann 28.október á heimaleik UMFN gegn Keflavík í mfl. karla. Aðalverðlaunin verða ferð fyrir 2 til Bandaríkjanna á NBA leik sem er svo sannarlega glæsilegt en auk þess verða aðrir glæsilegir vinningar. Dregið verður um 2 ferðir til Bandaríkjanna og verður sú seinni dregin út eftir áramót.

 

Æfingataflan sem nú hefur tekið gildi mun eitthvað breytast á næstu dögum þar sem tímar í Akurskóla hafa ekki verið samþykktir en allir iðkendur fá afhenda endanlega töflu  í byrjun næstu viku.

 

Örvar Þór Kristjánsson yfirþjálfari yngri flokka UMFN sagði í samtali við VF að það væri hugur í mönnum að gera gott starf enn betra. ,,Það hefur verið gríðarlega vel staðið að öllu yngri flokka starfi UMFN undanfarin ár og er ætlun okkar að slá hvergi slöku við.  Við höfum ráðið til okkar nýja þjálfara í bland við þá sem fyrir voru hjá félaginu og teljum okkur mjög vel mönnuð fyrir starfsemi vetrarins,” sagði Örvar og bætti við að með fjölgun íbúa í Njarðvíkurhverfunum þá væri ætlunin að fjölga iðkendum umtalsvert.

 

,,Það er okkar stefna að fá fleiri krakka til þess að taka þátt í okkar starfi enda teljum við okkur bjóða uppá frábært forvarnarstarf. Okkar mottó er að allir njóti sín og hafi gaman að því að æfa körfubolta hjá félaginu,” sagði Örvar og hvatti foreldra til þess að taka ríkan þátt í starfinu.

 

Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar um yngri flokka starf UMFN er bent á heimasíðu  félagsins www.umfn.is/karfan og geta einnig haft samband við Örvar 847 7392, Agnar 898 1213 eða Alexander 863 0199.

 

VF-Mynd/ [email protected]

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024