Kominn tími til að setja fána á vegginn
Petrúnella Skúladóttir leikmaður Njarðvíkinga hefur einu sinni lyft bikarnum í Laugardalshöll. Það var árið 2008 en þá lék hún með Grindvíkingum. Þær sigruðu þá Hauka með 77 stigum gegn 67 og skoraði Petrúnella 15 stig í leiknum. Árin 2005 og 2006 var Petrúnella svo í tapliði Grindvíkinga þannig að hún þekkir báðar hliðar bikarúrslitanna.
„Mér líst bara vel á þetta en það skiptir samt ekki máli hvort maður sé að fara í Höllina eða bara venjulegan deildarleik, verkefnið er alltaf það sama,“ segir Petrúnella en hún segist ekki vera búin að velta leiknum fyrir sér enda sé undanúrslitaleikurinn henni enn í fersku minni. „Haukarnir eru sterkir og við vissum að þetta yrði erfiður leikur, sem varð svo raunin að lokum,“ segir Petrúnella en leikurinn gegn Haukum fór eins og kunnugt er í framlengingu þar sem Njarðvíkingar höfðu nauman sigur.
„Þetta er ekki búið ennþá og maður er ekki orðinn saddur,“ en flestir sem fylgjast með körfubolta vita að leik Njarðvíkur og Hauka var frestað vegna kærumáls sem kom upp í leik Njarðvíkinga og Keflvíkinga í 8-liða úrslitum. „Við vorum búnar að bíða lengi eftir þessum leik og nú er biðin bara styttri í úrslitaleikinn fyrir vikið,“ segri Petrúnella.
Hvernig líst þér á lið Snæfells?
„Við erum búnar að vinna Snæfell í öllum viðureignum okkar í vetur en það breytir hins vegar litlu þegar komið er í úrslitaleikinn sjálfan. Þær eru með flott lið og ég býst við að þetta verði hörku leikur.“
Það vill nú þannig til að þrjár stúlkur í Njarðvíkurliðinu eru uppaldir Grindvíkingar en ásamt Petrúnellu koma þær Ólöf Helga Pálsdóttir og Harpa Hallgrímsdóttir frá Grindavík þó þær hafi leikið með Njarðvíkingum um skeið. „Það er fínt að hafa þær þarna með mér enda erum við búnar að þekkjast lengi. Annars erum við ekkert að velta þessu fyrir okkur og erum bara hluti af flottri liðsheild.“
Petrúnella vildi hvetja sem flesta til að mæta í Laugardalshöllina á laugardaginn en Njarðvíkingar ætla sér bikarinn í fyrsta sinn í kvennaboltanum.
„Ég vil endilega sjá fólk mæta á leikinn til að styðja sitt lið og ég vil sjá sem flesta Njarðvíkinga í stúkunni. Það hefur aldrei komið fáni upp á vegg hjá stelpunum í Njarðvík og nú er kominn tími til,“ segir Petrúnella að lokum.