Koma reynslunni ríkari frá Asíu
Mögnuð ferð til Taiwan að baki hjá Keflvíkingum
Keflvíkingarnir Ástrós Brynjarsdóttir, Karel Bergmann Gunnarsson og Sverrir Örvar Elefsen kepptu á úrtökumóti fyrir Ólympíuleika æskunnar og á heimsmeistaramóti unglinga í taekwondo á dögunum, sem fram fór í Asíuríkinu Tævan.
Sverrir og Karel Bergmann kepptu á úrtökunum fyrir Youth Olympic games. Sverrir keppti fyrsta bardagann og barðist við sterkan keppanda frá Belgíu. Sá keppandi stjórnaði bardaganum vel en Sverrir átti góða takta í bardaganum og náði m.a. góðu dvíuhúrijó sem skoraði fjögur stig. Belginn komast svo áfram og komst inn á leikana.
Karel keppti við keppanda frá Hvíta Rússlandi. Karel barðist vel á móti honum en Hvítrússinn var alltaf skrefinu á undan og því þurfti Karel að sækja hart í lok bardagans til að eiga möguleika á sigri. Þá þurfti hann að opna sig mikið og svo fór að bardaginn tapaðist.
Síðar kepptu Ástrós og Sverrir á HM unglinga. Aftur var Sverrir fyrstur og að þessu sinni gegn Hollenskum keppanda. Það var allt annar Sverrir sem keppti þennan dag en hann hafði bætt sig mikið og hlustað á þjálfarana síðan í fyrri bardaganum. Hollendingurinn var þó hlutskarpari.
Ástrós keppti sinn fyrsta bardaga við Serbneska stúlku. Sú hafði keppt fyrr um daginn gegn Frakklandi og höfðu Keflvíkingar því ágætis hugmynd um stíl hennar, sem hentaði nokkuð vel fyrir Ástrósu. Ástrós átti mjög góðan bardaga við stúlkuna og skiptust þær á góðum samsetningum, sú serbneska virtist alls ekki vera mikið sterkari, en þótt hún væri aðeins á undan í stigunum átti Ástrós helling í hana. Serbneska stelpan sigraði svo hverja stjörnuna á fætur annari, samtals sex bardaga og varð að lokum heimsmeistari. Það er nokkuð ljóst að Ástrós á nóg inni, yngsti keppandinn í flokknum og á annan mögueika á HM unglinga eftir tvö ár.
Karel keppti svo aftur en hann var í gífurlega sterkum riðli og keppti fyrsta bardaga við keppanda frá Bandaríkjunum. Karel kom einbeittur til leiks og kom eflaust allri stúkunni, bandaríska landsliðinu og þjálfurum á óvart þegar hann sparkaði strákinn niður með glæsilegu hringsparki strax í fyrstu lotu og tók forystuna. Hann hélt henni í dágóðann tíma en sá bandaríski var reynslumikill og góður og náði að komast yfir í 2. lotu og sigraði bardagann.