Kom hingað til að sanna að ég gæti byggt upp farsælt sundlið
Viðtal við Anthony Kattan, fráfarandi yfirþjálfara ÍRB í sundi
Anthony Douglas Kattan hefur sinnt yfirþjálfun sundliðs ÍRB undanfarin 5 ár með frábærum árangri en liðið vann flest verðlaun á Íslandsmeistaramóti í 50m laug fyrr í mánuðinum. Þessi 31 árs Ný-Sjálendingur var sjálfur landsliðssundmaður áður en hann hóf þjálfun en þjálfaraferill hans spannar veru í Nýja- Sjálandi, Hong Kong og á Íslandi auk fjölda annarra landa þar sem hann hefur sótt sér reynslu og þekkingu. Anthony kveður lið ÍRB eftir tímabilið og hann settist niður með íþróttafréttamanni VF til að ræða tíma sinn á Íslandi og sína ásýnd á íslenska sundmenningu.
Nú hefur þú verið í 5 ár á Íslandi, hvernig kom það til að þú ákvaðst að flytjast hingað og þjálfa?
Ég var aðstoðarþjálfari hjá alþjóðlegum skóla í Hong Kong þar sem ég vann með frábæru teymi þjálfara en við vorum ekki sáttir með þann vinnuramma sem okkur var settur þar. Það hafði mest að gera með að við fengum fáa tíma í sundlauginni á móti miklum væntingum til árangurs. Faglega gaf þetta mér ekki mikið, þótt að kaupið hafi verið frábært og mér þótti vænt um fólkið sem ég vann með. Ég var með flottan hóp unglinga og naut borgarinnar til hins ýtrasta. Ég sá svo yfirþjálfarastarfið hjá ÍRB auglýst og fannst það hljóma eins og góð áskorun að takast á við.
Hversu mikið vissir þú um landið, íslenska sundmenn og sundmenningu áður en þú lendir á Íslandi?
Ég vissi næstum ekkert. Þegar ég var boðaður í viðtal vegna starfsins fór ég að kynna mér íslenska sundið, þann árangur sem náðst hefur á Íslandi, sögu ÍRB og almennt um landið. Ísland er fimmta landið sem ég bý í og ég er mikið fyrir að ferðast og upplifa eitthvað nýtt.
Anthony ásamt nokrum af sundmönnum ÍRB á góðri stund
Kom eitthvað þér á óvart fyrstu vikurnar í starfi?
Þegar ég lít til baka þá var ég svolítið hissa á því hversu afslappað allt var í kringum liðið í samanburði við önnur lið sem ég hafði verið í kringum og átti að venjast sjálfur sem sundmaður. Ég hitti liðið fyrst í æfingaferð á Benidorm, en fyrir mér var þetta meira eins og frí með smá sundi til hliðar. Æfingabúðirnar okkar hafa þróast síðan þá en ég á góðar minningar frá þeirri ferð og voru þetta góð fyrstu kynni af liðinu.
Mér varð það ljóst snemma að skilgreining liðsins á árangri í sundi og skuldbindingu til æfinga héldust ekki í hendur við mín sjónarmið á sömu hluti. Ég sá að það var mikið verk framundan að koma liðinu á þann stað sem að ég vildi hafa það á. Ég byrjaði ekki að gera neinar stórvægilegar breytingar fyrr en eftir hálft ár í starfi. Fyrsta Íslandsmótið sem ég var með ÍRB liðið verð ég að setja niður á blað sem eitt versta mót sem ég hef tekið þátt í fyrir margar sakir. Ég sótti mjög fast að því að gera stórar breytingar eftir það. Sem betur fer var stjórn Sundráðs ÍRB opið fyrir því að hlusta á tillögur mínar í þeim efnum.
Flestir hlutir sem mér dettur í hug að hafi komið mér á óvart í gegnum tíðina má yfirleitt rekja til ólíkra menningarhátta og venja er kemur að viðhorfi og æfingaálagi. Ég hef reynt að auka áhuga sundmanna okkar fyrir því hver viðmiðin eru hjá jafnöldrum þeirra erlendis og hversu mikið þeir þurfa að leggja á sig til til að vera á sama stað og þeir. Við lesum greinar og skoðum úrslit í öðrum löndum. Það þyrmir stundum yfir sundmennina okkar sem hafa t.d. unnið Íslandsmót en lenda svo í síðasta sæti á Evrópumóti, en ég trúi því að það sé þeim hollt og nauðsynlegt til að víkka sjóndeildarhringinn sinn og skoða hlutina í stærra samhengi. Öðruvísi taka þau ekki þeim framförum sem til þarf ef maður ætlar sér að vera á meðal þeirra bestu.
Það var stundum mikil mótspyrna gegn breytingum hjá foreldrum til að byrja með og nánast sama hvaða hugmyndir ég kom með að borðinu, allar voru þær álitnar hryllilegar. Ég fékk að heyra ,,Þetta er Ísland" oftar en ég kærði mig um og ég skildi lítið í því af hverju liðið væri að fá sér erlendan þjálfara ef allir vildu dvelja í sama hjólfarinu áfram. Fyrstu þrjú árin voru erfið en þegar fjórða árið mitt gekk í garð voru hjólin farin að snúast og þrotlaus vinna fór að skila árangri. Fólk fór að skilja að breytingarnar sem við gerðum voru að virka og voru margir til í að hoppa á vagninn með mér upp frá því.
Hver voru þín markmið og hugmyndir með liðið þegar þú tókst við?
Liðið vildi koma sér aftur í fremstu röð á Íslandi. Þar sem að við búum í fremur litlu samfélagi með takmarkaða háskólamöguleika var mér það ljóst snemma að ÍRB myndi mögulega alltaf verða lið þar sem elstu sundmennirnir úr heimabyggð væru 19 ára eða yngri. Ég vildi samt sem áður koma hingað til að sanna mig og sanna að ég gæti byggt upp farsælt sundlið. Ég gerði mér ekki grein fyrir því þá hvers konar áskoranir ég átti eftir að glíma við á leið minni þangað, sérstaklega þegar kemur að ólíkum venjum. Skoðanir mínar hafa ekki breyst mikið á þeim tíma sem ég hef verið hér. Eg hef aðlagað mig að íslenskum háttum en ég held samt að krakkarnir hafi aðlagast mér meira ef eitthvað er.
Hvernig berðu saman íslenska sundmenningu og æfingaaðstöðu við þær sem að þú ólst upp með heima fyrir?
Hvað varðar aðstöðu til æfinga þá er Reykjanesbær á meðal heppnustu litlu samfélaga í heiminum, og það segi ég í fullri hreinskilni. Það eru ekki margir svo litlir bæir sem bjóða uppá 50 metra keppnislaug þar sem aðgengið er líka svona gott í þokkabót. Þess utan erum við með aðstöðu til styrktarþjálfunar í íþróttahúsinu sem er frábært. Kostnaður við sundiðkun er almennt talinn hár á hvern einstakling hér á landi en kostnaðurinn er allt að 40% hærri í Nýja Sjálandi. Á móti kemur þó að sundfólk í landsliðsklassa fær fleiri styrki til að stunda mót en hér þurfa krakkarnir að fjármagna ferðir sínar að mestu leyti sjálf sem getur verið talsverður baggi að bera. Það eina neikvæða sem ég get bent á hvað varðar aðstöðu eru hinir svokölluðu rauðu dagar, þar sem að sundlaugin er lokuð og ekki hægt að æfa, þá sér í lagi þegar stutt er í mót.
Menningarlega séð er mikill munur á þjóðunum hvað varðar sund og sundlaugar. Íslendingar elska vatnið og þá sérstaklega heitu pottana. Fólk stundar laugarnar ekki af eins miklu kappi heima og fólk gerir hér. Sund er einnig kennt á öllum stigum grunnskólans á Íslandi en því var hætt fyrir nokkuð löngu síðan á Nýja Sjálandi en þar fara öll börn í sérstaka sundskóla til að læra að synda vegna nálægðar við vatn úr öllum áttum.
Þegar kemur að keppni er töluverður munur. Ný-Sjálenskir sundmenn taka sér mun sjaldnar frí frá æfingum og eldri sundmenn eru mun skuldbundnari íþróttinni þar en hér. Þar spilar einnig inn í að sundlaugarnar heima loka ekki yfir stórhátíðir. Einnig eru mun fleiri iðkendur þar svo það gefur augaleið að flestir vinna aldrei til verðlauna á mótum svo flestir æfa til að bæta sig og eru ánægðir með það. Allt annað er plús. Hér á landi snýst þetta of mikið um verðlaunapeninga að mínu mat, sem eru e.t.v. of auðunnar. Næstum allir sundmennirnir í ÍRB hafa unnið til verðlauna á landsvísu sem væri ekki nánast ógjörningur heima. Samkeppnin heima er líka þannig að ef að sundmaður slakar á æfingum eða tekur sér frí er alltaf einhver sem er tilbúinn að taka fram úr honum. Þar byrja krakkarnir fyrr að stunda morgunæfingar, allt niður í 10 ára gömul.
Tími þinn með liðinu hefur verið mjög farsæll en er eitthvað sem að þú hefðir viljað áorka sem að ekki hafðist?
Það hefði verið gaman að ná í bikarmeistaratitil í drengjaflokki en það eru tiltölulega fáir strákar að æfa hjá okkur og í sumum flokkum eru engir strákar að æfa. Gæðin hjá strákunum okkar eru mikil á íslenskan mælikvarða að mínu mati og þeir 7 strákar sem æfa á elsta stiginu voru allir á palli á Íslandsmóti. Það vantar þó næsta aldurshóp á eftir þeim sem að gæti orðið vandamál í einhvern tíma. Það mætti endurskoða það hvernig við reynum að ná strákum inn í sundið á landsvísu og fá þá til að verða spenntir því að keppa.
Eins og ég hef komið inn á þá var töluverð andstaða við það aukna álag sem ég vildi setja á sundmenn deildarinnar með fleiri og lengri æfingum í lauginni sem og aukinni styrktarþjálfun og yoga þjálfun með elstu sundmennina. Ég stytti sumarfrí og æfingar á almennum frídögum voru settar á laggirnar. Ég trúði einfaldlega ekki á það að fara styttri leiðina og aðlaga mig að þeim venjum sem fyrir voru þar sem að kröfur til árangurs á heimsvísu haldast í hendur við það æfingaálag. Það fannst mörgum sjokkerandi hugsunarháttur sem mér fannst dapurt. Síðustu 2 ár hafa þessar venjur komist upp í að verða að hinu venjulega. Yngstu iðkendur deildarinnar sem hafa komið upp í gegnum mitt prógramm eru mun sterkari, betri og hungraðri í árangur en þeir sem ég tók við í fyrstu.
Það sem vantar helst upp á hvað varðar áherslubreytingar er að sundfólk þarf að hafa tækifæri og vilja til að æfa oftar og stífar þegar það verður eldra. Skóli og æfingar haldast ekki eins í hendur hér á landi og erlendis þar sem að sundfólk getur tvinnað betur saman nám að sund og æft meira án þess að það bitni á skólagöngunni. Ég hef séð fáa sundmenn hér ná að viðhalda æfingaálaginu sem fylgir grunnskólaaldri þegar það byrjar í framhaldsskóla þegar það ætti í raun að vera að taka næsta skref og æfa meira.
Hverjir hafa topparnir verið á ferli þínum hér hjá ÍRB?
Ég er sérstaklega stoltur af síðustu árum mínum mínum hjá félaginu. Ég veit að flestir sundmennirnir muna eftir fyrsta AMÍ mótinu okkar saman þar sem að við unnum mótið með minnsta mögulega mun. Það var mjög spennandi þar sem að við vorum ekki hátt skrifuð fyrir mótið. Það að sjá deildina styrkjast bæði fjárhagslega og gæðalega með tímanum hefur verið einkar ánægjulegt og það sýnir hversu miklum framförum við höfum tekið.
Það að verða sigursælasta liðið á ÍM50 um daginn var líka stórkostlegt.
Að sjá Kristófer og Sunnevu (iðkendur hjá ÍRB) ná yfir 750 FINA stig var æðislegt og að þau hafi farið til Katar og Kristófer keppt á heimsmeistaramótinu var ánægjulegt. Það sem stendur þó upp úr var að lesa hvað þau höfðu að segja í viðtali við VF þar sem þau sýndu að þau hafa vaxið í að verða frábærir íþróttamenn sem takast á við verkefnin af alúð og þroska. Ég hef sjaldan verið jafn stoltur og mér fannst ég hafa snert líf þeirra á jákvæðan hátt. Þau hafa sannað að maður uppsker eins og maður sáir.
Ég er einnig mjög ánægður með þá breidd sem liðið býr yfir í dag. Það eru ekki bara einstaklingar að skara fram úr. Þetta er sterk liðsheild framar öllu. Það verður gaman að fylgjast með framgangi mála hjá þeim í framtíðinni.
Einhverjar lægðir sem þú manst eftir?
Í þjálfun skiptast á skin og skúrir. Það er aldrei hægt að gera öllum til geðs og maður verður alltaf pirraður að sjá íþróttamenn sem leggja ekki nóg á sig til að ná fram því besta í sjálfum sér. Eins er maður ánægður að sjá árangur hjá þeim sem fara hina leiðina og eru tilbúnir að leggja sig alla í þetta. Mér hefur þó verið kennt að ef maður er að gera öllum til geðs og allir eru sáttir við mann er maður ekki að ýta nógu mikið á eftir árangri. Það verður enginn óbarinn biskup eins og þeir segja og ég hef predikað það áfram. Ég bjóst aldrei við að allt gengi smurt fyrir sig í gegnum minn tíma hér en það sem mér finnst mikilvægast er að vita að þeir sem tóku prógramminu opnum örmum og lögðu sig alla í það höfðu gaman af, lærðu helling og reyndu að ná fram því besta í sjálfum sér.
Það voru margir sundmenn, fjölskyldur þeirra, aðrir þjálfarar og annað fólk sem sögðu að mér myndi mistakast og voru andstæð því sem við vorum að gera hjá ÍRB. Það var leiðinlegt að heyra svona slúður sem rataði alltaf beint aftur til mín í svona litlu landi. En nú, nokkrum árum seinna, er það ég sem brosi breiðast.
Hvað er svo næst á dagskránni hjá þér?
Í augnablikinu er allt í vinnslu, þannig lagað. Ég er að flytja mig yfir til Hollands þar sem ég vann í kringum landsliðsprógrammið þar í febrúar, sem var ótrúleg reynsla. Mér var boðin vinna við ráðgjöf með áherslu á frammistöðugreiningu og þeir eru einnig að reyna að finna hlutverk fyrir mig í starfsliði unglingalandsliðsins þar í landi sem mun henta mér. Það er viss áhætta fólgin í því að fara en mér finnst ég hafa gert allt sem ég gat boðið fram með það mótlæti sem ég mætti og tel ég því að nú sé rétti tíminn til að kveðja.
Hvers muntu helst sakna við Ísland og ÍRB?
Mér er farið að þykja mjög vænt um klúbbinn. Síðustu ár hafa verið stórkostleg. Sundmenn sem hafa ekki viljað vera með í bátnum á þeim forsendum sem ég hef sett hafa yfirgefið liðið. Ég sat eftir með víðsýnni hóp af sundmönnum og fjölskyldum sem standa þétt við bakið á þeim og voru tilbúin að setja traust sitt á mig og hafa trú á þeim hugsjónum sem ég trúi að skili árangri. Árangurinn talar fyrir sig sjálfur þegar upp er staðið.
Ég hef eignast yndislega vini hér sem eru mér sem fjölskylda. Þá er ég einnig með yndislega yfirmenn sem ég mun sakna og er starf þeirra mjög vanmetið að mínu mati. Þeir eru miklir dugnaðarforkar sem vinna sleitulaust að því að efla klúbbinn og ber ég mikla virðingu fyrir þeirra starfi.
Ég mun sakna þess að fara út í fallega íslenska náttúru, margar af mínum uppáhalds stundum hafa verið í ferðum um þetta einstaka land. Ég hef upplifað bæði gott og slæmt veður í þessum ferðum og alltaf hefur verið gaman. Ég mun hins vegar ekki sakna veðursins á venjulegum dögum almennt. Fyrir vina mína sem þjálfa í útilaugum um land allt, tek ég hattinn ofan fyrir. Þeir eru guðir á meðal manna!