Knattspyrna: Keflavík og Þróttur skilja jöfn í deildarbikarnum
Í gærkvöldi gerði Keflavík jafntefli við Þrótt, 2-2, í fyrsta leik þeirra í deildarbikarnum í Reykjaneshöllinni. Þróttarar náðu forystunni í leiknum en Hörður Sveinsson jafnaði leikinn með laglegu marki eftir að hafa fengið góða stungusendingu inn fyrir vörnina. Stefán Gíslason bætti svo við öðru marki eftir hornspyrnu en Þróttarar jöfnuðu metin rétt fyrir leikslok.
Samkvæmt heimasíðu Keflavíkur voru þeir sterkari í leiknum og fengu mörg góð færi, m.a. skallaði Haraldur Guðmundsson í slá og Scott Ramsey átti hörkuskot í stöng úr aukaspyrnu. Gestirnir fengu vítaspyrnu en Magnús Þormar, markvörður Keflvíkinga, gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna.
Næsti leikur Keflavíkur í deildarbikarnum fer fram á föstudaginn en þá leikur liðið gegn Val í Egilshöll.