Klassavörn hjá Claessen sendi ÍR í Höllina
Framlengja varð leik Grindavíkur og ÍR í undanúrslitum Lýsingarbikars karla í körfuknattleik í kvöld þar sem ÍR-ingar höfðu að lokum sigur 91-95 eftir æsispennandi leik. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 78-78 og voru lokamínútur leiksins æsispennandi. Karla- og kvennalið Grindavíkur máttu því þola það í dag að detta bæði út úr bikarkeppninni á heimavelli en það var engu að síður gríðarleg stemmning í Röstinni í kvöld þegar þessir tveir leikir fóru fram. Hetja ÍR í leiknum í kvöld var enginn annar en Sveinbjörn Claessen þegar hann stal boltanum af Grindvíkingum þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka.
Steinar Arason gerði fimm fyrstu stig ÍR í leiknum og innan tíðar var staðan orðin 0-12 fyrir ÍR rétt eins og í kvennaleiknum sem fram fór skömmu áður. Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindvíkinga, tók þá leikhlé en það skilaði litlu þar sem ÍR komst í 6-20 áður en heimamenn rönkuðu við sér. Á lokaspretti fyrsta leikhluta náðu Grindvíkingar að minnka muninn í 17-24 þrátt fyrir að Calvin Clemmons hefði gert fyrstu stig Grindvíkinga þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum.
Í öðrum leikhluta héldu Grindvíkingar áfram að saxa á forskotið og náðu að lokum að jafna í 30-30. ÍR komst aftur á bragðið og voru ávallt skrefinu á undan Grindavík og leiddu því í hálfleik 43-45.
Grindvíkingar komu baráttuglaðir út úr búningsherberginu og gerðu 10 stig í röð í upphafi síðari hálfleiks án þess að ÍR næði að svara fyrir sig. Staðan var því skyndilega orðin 53-45 Grindavík í vil en þá vaknaði Ómar Sævarsson til lífsins í ÍR liðinu fór að láta verulega til sín taka. Engu að síður leiddu Grindvíkingar að loknum þriðja leikhluta 66-55 og unnu þeir því leikhlutann 23-10.
Snemma í fjórða leikhluta fékk Páll Kristinsson sína fjórðu villu hjá Grindavík en það hafði lítil áhrif því nýji leikmaður Grindvíkinga, Jonathan Griffin, var duglegur að halda sínum mönnum við efnið og skoraði reglulega þegar á þurfti að halda. Frábær frammistaða hjá Griffin sem kom til landsins í gær og hafði því lítinn sem engan tíma til að komast inn í Grindavíkurliðið.
Ómar Sævarsson jafnaði metin í 76-76 þegar um 1:20 mín voru til leiksloka. Grindavík komst í 78-76 en aftur jafnaði Ómar leikinn í 78-78 og reif ÍR-inga áfram með sér. Hvorugu liðinu tókst að skora eftir það og því varð að framlengja leikinn.
Tilhneigingin er að það lið sem gerir fyrstu körfu framlengingarinnar fer með sigur af hólmi en svo reyndist ekki í kvöld og afsönnuðu ÍR-ingar þá fullyrðingu. Grindavík gerði fyrstu stig framlengingarinnar og komst í 80-78. ÍR jafnaði 80-80 og Ómar Sævarsson kom gestunum yfir 81-83. Góður kafli ÍR-inga kom þeim svo í 83-88 en Jonathan Griffin minnkaði muninn í 89-90 með þriggja stiga skoti og Þorleifur Ólafsson kom Grindavík yfir 91-90. Ómar Sævarsson kom ÍR í 91-92 og átti hann stórleik á endasprettinum fyrir ÍR. Grindvíkingar héldu í sókn þegar um 15 sekúndur voru til leiksloka og voru að setja upp leikkerfi þegar Sveinbjörn Claessen kemst inn í sendingu, brunar upp völlinn og kemur ÍR í 91-94 og innsiglar sigurinn. Grindavík reyndi að jafna metin með þriggja stiga skoti sem geigaði, Nate Brown tók frákastið og brotið var umsvifalaust á honum. Skotréttur var kominn og því gerði Nate síðustu stig leiksins á vítalínunni. Það var því Sveinbjörn Claessen sem reyndist hetja ÍR í leiknum.
Jonathan Griffin var stigahæstur í liði Grindavíkur með 28 stig en hjá ÍR var Nate Brown með 23 stig. Ómar Sævarsson gerði 14 stig en fór á kostum í síðari hálfleik en aukareitis við 14 stig tók hann einnig 6 fráköst.
Það verða því engin Suðurnesjalið í karlaflokki í Höllinni þann 17. febrúar næstkomandi en ÍR og Hamar/Selfoss munu leika til úrslita en það gerðu liðin síðast árið 2001 þar sem ÍR hafði sigur í úrslitaleiknum. Keflavíkurkonur freista þess annað kvöld að komast í Höllina þegar þær mæta Hamri í Sláturhúsinu.