Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Klárum þetta á laugardaginn!“
Mánudagur 5. apríl 2004 kl. 22:32

„Klárum þetta á laugardaginn!“

Keflvíkingar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik á heimavelli sínum á laugardaginn eftir sannfærandi sigur á Snæfelli, 64-79, í þriðja leik liðanna í úrslitarimmunni.
Mikil spenna var fyrir þennan mikilvæga leik. Perluvinirnir Corey Dickerson og Arnar Freyr Jónsson, sem höfðu eldað grátt silfur saman í síðasta leik, voru mættir til leiks þrátt fyrir vangaveltur um annað og höllin var troðfull.

Keflvíkingar náðu forskoti snemma leiks og héldu henni þar til Snæfell jafnaði, 23-23, rétt fyrir lok fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta skoruðu gestirnir fyrstu 6 stigin og náðu bili sem Snæfellingum tókst ekki að brúa. Vörn Keflavíkur var geysilega sterk og náðu heimamenn aldrei upp taktinum í sóknartilburðum sínum. Þá átti hetja þeirra, Hlynur Bæringsson, afleitan dag þar sem hann skoraði einungis 3 stig og var hreinlega étinn undir körfunni af Fannari Ólafssyni og Derrick Allen.
Á meðan gekk Keflvíkingum flest í haginn og náðu þeir mest 12 stiga forskoti í fjórðungnum og héldu til leikhlés 9 stigum yfir, 32-41. Sá eini sem lét eitthvað að sér kveða í liði Snæfells í fyrri hálfleik var Sigurður Þorvaldsson sem hélt sínum mönnum á floti með 16 stigum.

Snæfellingar áttu góða innkomu í upphafi seinni hálfleiks þar sem þeir náðu að minnka muninn í 4 stig, 44-48. Þá tóku Keflvíkingar aldeilis við sér og skoruðu 14 stig í röð þar sem Sverrir Þór Sverrisson stýrði leik sinna manna eins og hershöfðingi. Hann var óþreytandi allan leikinn þar sem hann batt vörnina saman og hélt algerlega aftur af Dickerson.
Forysta Keflvíkinga var orðin 17 stig, 45-62, fyrir lokafjórðunginn og Snæfellingar höfðu ekki sýnt neitt sem benti til þess að þeir væru að fara taka leikinn í sínar hendur.
Á lokakaflanum var ekki spurning í hvað stefndi og heimamenn voru  23 stigum undir þegar verst lét. Þeir skoruðu þó 9 af 10 síðustu stigum leiksins en góður sigur var engu að síður staðreynd og Snæfellingar verða að hysja uppum sig brækurnar ef þeir ætla ekki að missa af titlinum í Keflavík á laugardaginn.
Flestir leikmenn Keflavíkurliðsins skiluðu sínu hlutverki með prýði í kvöld þar sem Magnús Þór sýndi enn hvers hann er megnugur og Derrick og Fannar voru eins og klettar undir körfunum að ógleymdu framlagi Sverris. Nick Bradford hefur hins vega oft átt betri daga í sókninni, en kappinn var einungis með 8 stig í leiknum.

„Þetta var glæsilegt,“ sagði Falur Harðarson kampakátur að leik loknum. „Okkur tókst allt sem við lögðum upp með í köld. Við spiluðum góða vörn og stoppuðum þá í sóknarfráköstunum. Sverrir var rosalegur í kvöld og þegar hann tekur svona syrpur fylgir liðið allt í kjölfarið.Við vorum að spila á níu mönnum sem spiluðu allir vel og við ætlum bara að klára þetta á laugardaginn!“

Hér má sjá tölfræði leiksins

VF-myndir: Hilmar Bragi, úr leik liðanna í Keflavík sl. laugardag

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024