KKÍ: Fjölnir og Haukar mætast í nýjum leik
Í gær kvað dómstóll KKÍ upp þann úrskurð að úrslitin í leik Fjölnis og Hauka í 1. umferð Intersport-deildarinnar í körfuknattleik skyldu dæmd ógild. Liðin þurfa því að mætast að nýju.
Fjölnismenn sigruðu umræddan leik en Haukar kærðu leikinn þar sem þeir töldu sig hafa skorað löglega körfu undir lok leiksins og þannig tryggt sér sigur. Leikklukkan á ritaraborðinu fór ekki af stað á tilætluðum tíma og því dæmdu dómarar leiksins umrædda körfu Hauka ógilda og létu Hauka hefja nýja sókn þar sem þeir náðu ekki að skora. Fjölnismenn fögnuðu því sigri í leiknum.
Haukar fóru fram á það í kæru sinni að þeim yrði dæmdur sigur í leiknum en Fjölnismenn kröfðust þess að kærunni yrði vísað frá. Liðin þurfa að mætast að nýju en Haukar eru í 7. sæti deildarinnar með 4 stig en Fjölnir er í 3. sæti með 8 stig. KKÍ hefur ekki sett leikinn á dagskrá enn sem komið er.
VF-mynd/ úr leik Njarðvíkur og Hauka