Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kjartan Helgi gerir það gott í Bandaríkjunum
Mánudagur 28. janúar 2013 kl. 09:24

Kjartan Helgi gerir það gott í Bandaríkjunum

Hinn 18 ára gamli Kjartan Helgi Steinþórsson úr Grindavík hefur staðið sig vel í körfuboltan vestan hafs. Hann er á lokaári sínu í menntaskólanum Hampton Roads Academy í Newport News Virginiu í Bandaríkjunum og hefur heldur betur látið til sín taka inni á körfuboltavellinum.


Fyrst síðastliðinn vetur með hinu geysisterka menntaskólaliði Warren G. Harding í Warren Ohio. Þar komst Kjartan Helgi í byrjunarliðið í frábæru körfuboltaliði og var einn af lykilmönnum þess sem náði alla leið í átta liða úrslitin yfir allt Ohio fylki. Menn þar á bæ gerðu allt til þess að halda Kjartani Helga áfram en vegna reglna um skiptinema, varð hann að færa sig um set.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Margir skólar sóttust eftir kröftum Kjartans en hann færði sig um set til Virginiu í menntaskólann Hampton Roads Academy sem er virtur einkasóla þar um slóðir. Með því liði hefur hann vakið verðskuldaða athygli, bæði innan vallar sem utan. Gengi liðsins hefur verið  gott í vetur, 11 sigurleikir gegn mörgum sterkum liðum og fjórir tapleikir.

Kjartan Helgi hefur skilað frábæru framlagi fyrir liðið eða 18.5 stig, 11.5 fráköst, 6 stoðsendingar,
og 2.5 stolnir boltar að meðaltali í leik hingað til á leiktíðinni. Hann hefur verið leiðtogi liðsins á öllum sviðum.

Á milli jóla og nýárs var haldið mót þar sem átta liðum var boðið að taka þátt. Mótið er árlegt og haldið í þeim tilgangi að gefa háskólaþjálfurum og njósnurum tækifæri til þess að nota jólafríið sitt til að skoða leikmenn. Hampton Roads liðið varð í 3. sæti á mótinu og spilaði þrjá leiki. Kjartan Helgi var stigahæsti leikmaður mótsins með 22 stig, 13.5 fráköst og 7 stoðsendingar að meðaltali í leik og var valinn í fimm manna úrvalslið mótsins. Óhætt er að segja að vel er fyllst með drengnum þar vestra og eru ýmsar þreifingar í gangi varðandi háskólaboltann á næsta ári.

Nokkrum sinnum í vetur hefur Kjartan gælt við þrefalda tvennu í leik og hún kom loksins síðastliðinn laugardag í góðum sigri á heimavelli á móti mjög sterku liði. Hann skilaði 13 stigum, 11 fráköstum og 11 stoðsendingum.

Þess má geta að Kjartan Helgi er 196 sm á hæð og spilar stöðu leikstjórnanda og skotbakvarðar en reyndar getur hann leyst framherjastöðuna líka. Gaman verður að sjá hvert framhaldið verður hjá honum.

 

Frétt af Grindavík.is.

Mynd: Kjartan Helgi í leik með menntaskólaliði Warren G. Harding í Warren Ohio í fyrravetur.