Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Kjarninn í liðinu er heimamenn
Sami Kamel og Axel Ingi Jóhannesson fagna marki Kamel gegn Val í fyrra, þeir eru mikilvægir hlekkir í liðinu. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 21. apríl 2024 kl. 06:09

Kjarninn í liðinu er heimamenn

„Ef þú ert nógu góður þá spilarðu,“ segir Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga.

Eftir fall úr Bestu deildinni á síðasta tímabili leika Keflvíkingar nú í Lengjudeild karla í fyrsta sinn síðan árið 2020 en þá höfnuðu þeir í efsta sæti deildarinnar. Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, er þeirrar skoðunar að Keflavík eigi að eiga lið í efstu deild svo hann hefur eflaust hug á að fara beint upp aftur. Karlalið Keflavíkur mætir Breiðablik í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins þann 24. apríl næstkomandi og síðan hefst Lengjudeildin 3. maí. Keflavík er þessa dagana í Salou á Spáni þar sem verið er að fínstilla liðið fyrir keppnistímabilið.

Þjálfarateymið, Ómar Jóhannsson, Haraldur Freyr og Hólmar Örn Rúnarsson.

„Það er tilhlökkun í manni að byrja þetta,“ segir Haraldur þar sem hann var staddur í Salou sem er rétt hjá Barcelona. „Við ætlum að taka góða viku hér í Salou til að leggja lokahönd á undirbúninginn og svo byrjar ballið.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hver eru helstu markmið ykkar í sumar?

„Það hefur nú ekkert verið rætt neitt sérstaklega. Við förum í alla leiki til að vinna og sjáum svo hverju það skilar okkur. Það er mín skoðun að Keflavík eigi að eiga lið í efstu deild en það hefur engin krafa komið frá stjórninni um það að fara upp. Þetta nýja fyrirkomulag með umspil liðanna í öðru til fimmta sæti getur breytt heilmiklu. Sjáum bara Aftureldingu sem var á toppnum nánast allt tímabilið í fyrra en endaði svo á að komast ekki upp.“

Byggja á heimamönnum

Keflavík vann Víking Ólafsvík í annarri umferð Mjólkurbikars karla í síðustu viku og þá voru það ungu leikmennirnir sem skoruðu mörkin; Stefán Jón Friðriksson, Valur Þór Hákonarson og Axel Ingi Jóhannesson, allir fæddir árið 2006.

Þú ert með frekar ungt lið í höndunum. Ertu alveg að treysta þeim fyrir verkefninu?

„Það er enginn of ungur eða of gamall til að spila. Ef þú ert nógu góður þá spilarðu, það er svo einfalt,“ segir Haraldur. „Nokkrir af þessum strákum fengu að spreyta sig í efstu deild í fyrra og stóðu sig vel. Axel Ingi lék til dæmis megnið af leikjunum og skilaði sínu. Þá stóð Ásgeir Orri [Magnússon] í markinu í tveimur síðustu leikjunum í fyrra og hann fær að eiga sviðið í sumar. Kjarninn í liðinu er heimamenn, bæði ungir en líka reynslumiklir leikmenn, það er samkeppni um stöður,“ segir Haraldur.

Gunnlaugur Fannar Guðmundsson gekk til liðs við Keflavík á nýjan leik fyrir nokkrum dögum. Var ekki kærkomið að fá þann reynslubolta inn í hópinn?

„Gunnlaugur óskaði eftir að fá að æfa með okkur eftir að hann fór frá Fylki, fljótlega fór okkar samtal í gang og ákvörðun tekin um að hann verði með okkur í sumar. Hann kemur auðvitað með mikla reynslu inn í liðið – og þá sérstaklega úr þessari deild.“

Framherjinn öflugi, Stefan Alexander Ljubicic, samdi við sænska B-deildarliðið Skövde í lok síðasta mánaðar og Haraldur segir að verið sé að leita að nýjum framherja í hans stað.

„Vissulega er slæmt að missa Stefan úr liðinu svona skömmu fyrir mót en vonandi gengur honum vel í Svíþjóð. Vissulega þurfum við að bæta við okkur framherja en núna erum við að skoða kantmann frá -Angóla sem er að æfa með okkur hérna í Salou,“ sagði Haraldur að lokum.

Leikmenn Keflavíkur kvarta ekki yfir veðráttunni í Salou þar sem þeir eru staddir þess dagana.

Haraldur fer yfir málin með leikmönnum á æfingasvæðinu í Salou.