Kinga jók forystu sína á Hvaleyrinni
Hin 13 ára Kinga Korpak úr Golfklúbbi Suðurnesja jók forystu sína eftir annan hring af þremur á Borgunarmótinu á Eimskipsmótaröðinni í golfi en mótið fer fram á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði.
Kinga lék frábært golf í dag og kom í hús á pari vallarins eða 71 höggi og er samtals á tveimur höggum yfir pari.
Fyrir daginn var Kinga með eins höggs forystu á Karenu Guðnadóttur, en Karen náði sér ekki á strik í dag og er samtals á 10 höggum yfir pari eftir daginn.
Á hringnum í dag fékk Kinga aðeins tvo skolla, á holum fimm og sjö, tvo fugla, á holum fjögur og átta, og restina pör. Í mótinu hefur hún leikið frábært og jafnt golf en hún er aðeins búin að fá fjóra skolla, tvo fugla og restina pör. Kinga er með fimm högg forskot en í 2. sæti er Helga Kristín Einarsdóttir.