Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keppt við tímann: Njarðvíkingar í 1. deild að ári
Föstudagur 18. ágúst 2006 kl. 15:24

Keppt við tímann: Njarðvíkingar í 1. deild að ári

Stefán Bjarkason, framkvæmdastjóri Menningar-, íþrótta,- og tómstundasviðs Reykjanesbæjar segir að allt verði gert til þess að uppfylla nauðsynlegustu kröfur sem gerðar verða til Knattspyrnudeildar Njarðvíkur sem mun tefla fram liði í 1. deild að ári. Leifur Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar UMFN, er bjartsýnn á að framkvæmdir gangi upp á réttum tíma en knattspyrnuaðstaða Njarðvíkinga, vallarhús, keppnisvöllur og æfingasvæði, fara undir byggingu Nesvalla sem verður íbúðabyggð með sérhönnuðum íbúðum fyrir eldra fólk ásamt félags- og þjónustumiðstöð.

„Hlutirnir mega gerast hratt því tíminn er fljótur að líða en bæjaryfirvöld hafa alltaf staðið vel við bakið á íþróttafélögunum hér í bæ. Eflaust vilja allir fá sitt strax en menn verða bara að fara í röðina og bíða rólegir,“ sagði Leifur Gunnlaugsson í samtali við Víkurfréttir. „Hér í seinni tíð hefur verið mikill gangur í verkefnum í bænum og við erum bjartsýnir á að okkar aðstaða, sem uppfylla þarf kröfur 1. deildar, verði reiðubúin fyrir næstu leiktíð,“ sagði Leifur.

Stefán Bjarkason segir að búninga- og þjónustuaðstaða Njarðvíkurliðsins sé á teikniborðinu en þegar er keppnis- og æfingaaðstaða félagsins reiðubúin, þ.e. grasvöllurinn þar sem starfsemin á að fara fram. „Búið er að leggja veginn að æfingasvæðinu og var bókað á síðasta fundi MÍT að auka þyrfti við grassvæðið sem þegar er til staðar á Nikel-svæðinu,“ sagði Stefán. Góðar horfur eru á því að þjónustuhúsnæðið verði tilbúið fyrir næstu leiktíð því við viljum helst ekki setja félagið í bráðabirgðahúsnæði. Það verður allt gert til þess að uppfylla nauðsynlegustu kröfur,“ sagði Stefán.

Ef ekki tekst að ljúka framkvæmdum áður en keppni í 1. deild hefst á næstu leiktíð þykir líklegt að Njarðvíkingar leiki sína heimaleiki á Keflavíkurvelli en þar fyrir leika karla- og kvennalið Keflavíkur í Landsbankadeild. Færi svo að Njarðvík myndi leika sína heimaleiki á Keflavíkurvelli á næstu leiktíð er ljóst að álagið á völlinn yrði mikið og myndi ganga nærri gæðum vallarins. Allt bendir þó til þess að hin nýja aðstaða Njarðvíkurliðsins verði reiðubúin fyrir næstu leiktíð en nokkuð tímakapphlaup er óhjákvæmilegt.

VF-mynd/ séð yfir grasvöllinn þar sem fyrirhugað er að Njarðvíkingar hafi æfinga- og keppnisaðstöðu á næstu leiktíð.


[email protected]

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024