Kenneth samdi til þriggja ára
Sænski varnarmaðurinn Kenneth Ingemar Gustafsson hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Landsbankadeildarlið Keflavíkur. Víkurfréttir tóku Kenneth tali en þetta er hans önnur leiktíð hjá félaginu og hann telur að Keflavík geti vel landað Íslandsmeistaratitli á næstu leiktíðum og bikarmeistaratitlinum í ár.
Af hverju ákvaðst þú að framlengja samning þinn við Keflavík?
Við erum með gott lið sem er að verða betra og betra og við eigum góða möguleika á því að ná Íslandsmeistaratitli næstu þrjú árin. Einnig vona ég að mér fari hér fram sem leikmanni undir stjórn þjálfaranna Kristjáns og Kristins.
Hvað varð til þess í upphafi að þú ákvaðst að ganga til liðs við Keflavík?
Ég hafði spilað í sterkum deildum í Svíþjóð og Noregi og fannst kominn tími á að skoða nýtt landslag í fótboltanum. Fyrir voru góðir vinir mínir í Keflavíkurliðinu, þeir Ómar Jóhannsson og Guðmundur Mete, svo ég ákvað að slá til og var viss um að það yrði góð reynsla að leika í nýju landi.
Hvaða breytingum hefur þú helst tekið eftir á liðinu síðan þú komst til Keflavíkur?
Það hefur verið töluvert umrót á liðinu en ég tel að við höfum leyst vel úr þeim málum. Við erum alltaf að spila betur og betur og vona að við getum haldið áfram að spila vel út leiktíðina.
Á hvaða sæti finnst þér raunhæft að stefna núna í Landsbankadeildinni?
Við getum vel náð 2. sæti ef við höldum uppteknum hætti. FH eru fjarri augnsýn en við höfum burði til þess að leggja Val, Fylki og Breiðablik í síðustu leikjunum og vinna bikarinn. Það yrði þá frábær leiktíð hjá okkur.
Mynd: Kenneth og Rúnar V. Arnarson, formaður KSD Keflavíkur.