Kekic ekki meira með Grindavík
Sinisa Valdimar Kekic mun ekki leika meira fyrir Landsbankadeildarlið Grindavíkur í knattspyrnu á þessari leiktíð. Þetta tjáði Sigurður Jónsson, þjálfari Grindavíkur, Víkurfréttum fyrir stundu. Upp kom ágreiningur á milli Kekic og Sigurðar sem lyktaði með því að Kekic ákvað að leika ekki meira fyrir Grindavík.
Sigurður vildi ekki tjá sig um ákvörðun Kekic en sagði að hún hefði verið alfarið hans og að það myndi ráðast á næstunni með hvaða liði Kekic myndi leika það sem af lifir af þessari leiktíð.
Ljóst er að mörg félög gætu notið krafta Kekic sem er enn með sterkari leikmönnum deildarinnar þrátt fyrir að vera kominn af léttasta skeiði.
Sigurður Jónsson sagði einnig í samtali við Víkurfréttir að það væri mikilvægt að bæta sóknarleikinn fyrir leik kvöldsins en hann kvaðst sáttur við vörnina enda hefur Grindavík ekki fengið á sig mark í síðustu tveimur leikjum.