Íþróttir

Keflvíkingar virðast óstöðvandi
Sverrir Sverrisson og Elentínus Margeirsson eru að gera góða hluti með meistaraflokk kvenna hjá Keflavík. Mynd úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 22. febrúar 2024 kl. 09:00

Keflvíkingar virðast óstöðvandi

Keflavík og Grindavík mættust í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í gær en liðin eru í efsta og þriðja sæti deildarinnar. Keflavík sýndi klærnar og hafði tök á leiknum frá upphafi til enda. Keflavík vann með 28 stiga mun og jók forskot sitt á toppi deildarinnar í sex stig á Njarðvík sem er í öðru sæti.

Keflavík - Grindavík 95:67

Grindvíkingar áttu ekki sinn besta dag í Blue-höllinni í gær og höfðu fá ráð gegn öflugu liði Keflavíkur sem skoraði fyrstu stigin og hélt forystunni allan leikinn. Þær keflvísku juku muninn jafnt og þétt, leiddu með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta (23:19), þrettán stig í hálfleik (52:39), 21 stig fyrir lokaleikhlutann (72:51) og höfðu að lokum 28 stiga sigur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Allir leikmenn Keflavíkur komust á blað í gær en Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst með nítján stig. Emelía Ósk Gunnarsdóttir kom næst með fimmtán stig, Anna Lára Vignisdóttir og Birna Valgerður Benónýsdóttir tólf stig hvor og Daniela Wallen með tíu stg. Aðrar komust ekki í tveggja stafa tölu.

Hjá Grindavík komust þrjár í tveggja stafa tölu; Sarah Mortensen var stigahæst með fimmtán stig, Eve Braslis með fjórtán og Alexandra Sverrisdóttir ellefu.