Keflvískur sigur í bæjarslagnum - myndaveisla
Keflvíkingar fóru með sigur af Njarðvíkingum 88:84 í viðureign liðanna í Dominos-deild karla í körfuknattleik í kvöld. Leikið var í Bluehöllinni í Keflavík. Keflvíkingar eru enn ósigraðir eftir þriðju umferð deildarinnar.
Keflvíkingar voru með undirtökin allan leikinn. Þeir leiddu í hálfleik með 50 stigum gegn 36. Eftir þriðja leikhluta var staðan 71:56 fyrir heimamenn.
Það var ekki fyrr en í fjórða og síðasta leikhlutanum sem Njarðvíkingar ógnuðu Keflavík eitthvað að ráði en lokastaðan var sigur Keflavíkur, 88:84.
Dominykas Milka skoraði 24 stig fyrir Keflavík, Deane Williams 20 og Khalil Ullah Ahmad 19.
Hjá Njarðvík var Mario Matasovic stigahæstur með 19 stig og Maciek Stanislav Baginski með 14.