Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkurstúlkur bikarmeistarar 2018
Embla átti stórleik í bikarúrslitunum. VF-mynd/hildurbjörk.
Laugardagur 13. janúar 2018 kl. 17:59

Keflvíkurstúlkur bikarmeistarar 2018

Keflavík varð bikarmeistari kvenna í körfubolta þegar liðið lagði nágranna sína úr Njarðvík í úrslitaleik í Laugardalshöllinni í dag. Leikurinn var mjög jafn og spennandi fram í fjórða leikhluta þegar margfaldir meistarar síðasta árs, þar á meðal bikarmeistarar, sigu fram úr og sigruðu að lokum með 11 stiga mun, 74-63. Þetta er 15. bikarmeistaratitill Keflavíkur en liðið er það sigursælasta í kvennakörfunni.

Njarðvíkurstúlkur geta þó borið höfuðið hátt því þeim hefur gengið illa í vetur. Þær stóðu í meisturunum stóran hluta leiksins og í hálfleik var jafnt á liðunum. Embla Kristínardóttir átti stórleik hjá Keflavík

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Við komum mjög tilbúnar í seinni hálfleikinn en þetta var mjög jafnt í fyrri hálfleik. Þetta er æðislegt, ég er mjög ánægð,“ sagði Embla sem var maður leiksins og skoraði 20 stig fyrir Keflavík.

Liðsheildin skóp sigur Keflvíkinga og munurinn kom helst fram í liðsheild og meiri breidd.

Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Njarðvíkurstúlkna sagðist stoltur af sínu liði og var ánægður þrátt fyrir tapið. „Keflavík er auðvitað magnað lið og við gáfum þeim hörku keppni.“

Shalonda R. Winton, útlendingurinn í Njarðvíkurliðinu átti stórleik og hélt þeim grænu í leiknum. Hún skoraði 37 stig og tók 23 fráköst. Þetta eru tölur sem eru sjaldgæfar hjá einum leikmanni.

„Alltaf gaman að vinna. Njarðvík voru frábærar og við vorum lengi að finna út úr svæðisvörninni en það tókst og unnum þetta með stæl að lokum. Við áttum von á þeim sterkum en við þurftum virkilega að hafa fyrir þessu. Það verður gaman að koma með bikarinn á Þorrablót Keflavíkur í kvöld,“ sagði Sverrir Sverisson, þjálfari Keflavíkinga m.a. í viðtali við RÚV eftir leikinn.

Keflavík: Embla Kristínardóttir 20/6 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir 16/9 fráköst/5 stoðsendingar, Brittanny Dinkins 16/11 fráköst/8 stoðsendingar/5 stolnir, Irena Sól Jónsdóttir 6, Erna Hákonardóttir 6, Birna Valgerður Benónýsdóttir 5/6 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 5, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 0, Anna Ingunn Svansdóttir 0, Elsa Albertsdóttir 0, Katla Rún Garðarsdóttir 0, Svanhvít Ósk Snorradóttir 0.

Njarðvík: Shalonda R. Winton 37/23 fráköst/3 varin skot, Erna Freydís Traustadóttir 7, Björk Gunnarsdótir 6/4 fráköst, Hrund Skúladóttir 5/4 fráköst, Hulda Bergsteinsdóttir 4, Aníta Carter Kristmundsdóttir 3, María Jónsdóttir 1/4 fráköst, Dagmar Traustadóttir 0, Karen Dögg Vilhjálmsdóttir 0, Heiða Björg Valdimarsdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0, Ína María Einarsdóttir 0.

Keflavíkurstúlkur unnu annað árið í röð en sinn 15. titil. VF-myndir/HildurBjörkPálsdóttir.

Erna Hákonardóttir sækir að körfu Njarðvíkinga.

Þessar tvær voru mjög áberandi í leiknum, Telma skoraði 16 stig og Shalonda R. Winton gerði 37 stig og tók 23 fráköst. Hreint magnaður leikmaður.

Keflavíkurstúlkur fögnuðu innilega.

Björk Gunnarsdóttir sækir að körfu Keflavíkur.

Hart barist undir körfu Keflvíkinga.