Keflvíkingur í fimmta sæti á Evrópumóti í keilu
Keflvíkingurinn Gunnar Þór Ásgeirsson, sem keppir fyrir ÍR í keilu, varð í fimmta sæti á Evrópumóti landsmeistara ECC á Krít í Grikklandi. Gunnar var aðeins 27 pinnum frá fjórða sæti sem hefði tryggt honum rétt til að keppa í undanúrslitum mótsins.
Gunnar Þór var með 226,2 í meðaltal í mótinu eftir 28 leiki en hann vann sig upp sætalistann frá því að hann komst í sextán manna úrslit en Gunnar var í níunda sæti eftir forkeppnina.
Eftir keppni í sextán manna úrslitum færðist Gunnar upp í sjöunda sæti og tryggði sér þar með rétt til að keppa í átta manna úrslitum, er þetta aðeins í þriðja sinn sem íslenskur keilari kemst í átta manna úrslit ECC.
Það er skammt stórra högga á milli hjá Gunnari Þór en hann mun rétt stoppa í einn dag hér heima áður en hann heldur til Dubai með íslenska karlalandsliðinu til keppni á Super World Cup.