Íþróttir

Keflvíkingum spáð falli í Pepsi-deildinni í sumar
Fimmtudagur 19. apríl 2018 kl. 06:00

Keflvíkingum spáð falli í Pepsi-deildinni í sumar

Vísir.is og Fótbolti.net eru að birta spár sínar fyrir Pepsi-deildina í knattspyrnu í sumar og báðir miðlarnir spá því að nýliðar karlaliðs Keflavíkur falli og fari beint aftur niður í Inkasso-deildina eftir sumarið. Báðir miðlar spá liðinu í tólfta og neðsta sæti deildarinnar.

Þegar farið er yfir liðið þá er aðallega nefnt hversu ungt og reynslulítið liðið er í efstu deild. Aðeins þrír leikmenn hafa bæst við leikmannahópinn í vetur og hafa tveir hætt, það finnst spekingum miðlanna ekki vera nógu gott en á fótbolti.net kemur þetta fram þegar talað er um styrkleika liðsins:
„Keflvíkingar eru með marga unga og efnilega uppalda stráka sem eru með stórt Keflavíkurhjarta og hafa burði til að ná langt í fótboltanum. Jeppe Hansen var markakóngur í Inkasso-deildinni í fyrra og þar er á ferðinni markaskorari með góða reynslu úr Pepsi-deildinni. Laugi er klókur þjálfari sem náði fljótt að mynda sterka liðsheild hjá Keflavík í fyrra og það sama verður að vera uppi á teningnum í ár. Varnarleikurinn hefur verið traustur í vetur og hægt er að byggja ofan á það.“

Public deli
Public deli

Í spánni hjá Vísir.is er talað um að lykilleikmenn liðsins séu þeir Marc McAusland, Hólmar Örn Rúnarsson og Jeppe Hansen en þeir eru reynsluboltar liðsins. Þar er einnig talað um styrkleika liðsins:
„Styrkleiki Keflavíkur liggur í þremur reynsluboltum í vörn, miðju og sókn. Í kringum þessa reynslubolta eru yngri menn sem Laugi blóðgaði í fyrra en þeir eiga eftir að spila alvöru mínútur í efstu deild. Meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá lykilmönnum í vetur en lítið má út af bregða í liði Keflavíkur.“

Komnir:
Aron Freyr Róbertsson frá Grindavík
Bojan Stefán Ljubicic frá Fjölni
Jonathan Faerber frá Reyni Sandgerði

Farnir:
Jóhann Birnir Guðmundsson hættur
Jónas Guðni Sævarsson hættur