Keflvíkingum slátrað í Sláturhúsinu
„Ég veit ekki hvort við vorum of spenntir eða ekki nógu spenntir. Við vorum bara ótrúlega lélegir og Hólmarar áttu skilið að vinna. Þeir voru miklu betri,“ sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur eftir niðurlægingartap gegn Snæfelli í lokaleik Iceland Express deildarinnar í körfu í Toyota höllinni í Keflavík í kvöld.
Lokatölur urðu 69-105. Þetta er ekki prentvilla. Snæfellingar niðurlægðu Keflvíkinga og sýndu hverjir voru í hlutverki slátraranna í Sláturhúsinu í kvöld. Það var ekki að furða að Guðjón hafði ekki nein svör í leikslok. Leikur Keflavíkur var ömurlegur og um þúsund áhagendur þeirra trúðu ekki sínum eigin augum. Munurinn 18 stig eftir fyrsta leikhluta og 26 stig í hálfleik 30-56.
Heimamenn reyndu að rifja upp hvernig Keflavík tókst að vinna upp tuttugu stiga mun gegn KR fyrir stuttu. Gat það gerst í kvöld. Svar: Nei. Þriðji leikhlutinn var þó sá skásti ef það er hægt að tala um eitthvað sem var ekki lélegt hjá margföldum Íslandsmeisturum í körfubolta. Hólmarar héldu áfram slátruninni og náðu mest 36 stiga mun (ekki heldur prentvilla) og þannig var það í lokin, lokatölur 69-105, ÞRJÁTÍU OG SEX STIGA TAP!.. og enginn dolla í ár. Það er hálf glatað að rifja það upp að Snæfell vann Keflavík líka í undanúrslitum bikarkeppninnar og varð svo bikarmeistari.
Það var einn leikmaður hjá Keflavík sem sýndi einhver tilþrif. Aðeins „Jú“ (Urule) stóð í Hólmurum og skoraði þriðjung stiga Kelavíkur eða 23 stig. Sverrir Þór var honum næstur og skoraði 10 stig, Sigurður Þorsteinsson 9 stig.. Lykilmenn eins og Hörður (7 stig), Bradford (6 stig) og Gunnar Einarsson (6 stig) sáu ekki til sólar.
Nokkrar hrikalegar staðreyndir: Hólmarar voru með 11 þrista, þar af 9 (53% nýting) í fyrri hállfeik á móti 2 þristum hjá Keflavík. Var ekki Keflavík alltaf þristalið? Snæfell var með 71% nýtingu í tveggja stiga skotum á móti 54% hjá Keflavík. Hólmarar tóku 44 fráköst (Hlynur 15 stk.) en Keflavík 26 fráköst.
„Þetta var mjög skrýtið eins og ég var með góða tilfinningu fyrir leikinn en við áttum einhvern veginn aldrei séns efir þessa slöku byrjun“ sagði Gunnar Einarsson.
Urule treður með tilþrifum. Á neðri myndinni er Sverrir Þór í sókninni. VF-myndir/Hildur Björk og Páll Orri.