Keflvíkingum gengur illa að skora
Bið Keflvíkinga eftir sigri lengist eftir enn eitt jafnteflið en þeir tóku á móti Fylkismönnum í gær í mikilvægum botnslag. Keflavík lenti undir í fyrri hálfleik en varamaðurinn Edon Osmani skoraði jöfnunarmarkið skömmu eftir að hann kom inn á.
Það var mikið í húfi í gær og Keflvíkingar hófu leikinn mjög vel. Þeir voru ákveðnari og settu talsverða pressu á gestina. Það var því gegn gangi leiksins þegar Fylkir komst yfir með marki eftir hornspyrnu (35').
Keflvíkingar voru ansi slegnir eftir markið sem var eins og blaut tuska í andlitið en þeir náðu að rífa sig í gang í seinni hálfleik. Leikurinn bauð ekki upp á mörg færi og fór mikið fram á miðjum vellinum og í háloftunum.
Bæði lið lögðu áherslu á varnarleik og treystu svo á skyndisóknir, mikið um langar sendingar fram völlinn. Keflvíkingar áttu þó góðar rispur upp kantana sem voru oft og tíðum efnilegar en það vantar upp á getuna að klára sóknirnar og koma boltanum í netið. Keflavík hefur aðeins skorað átta mörk í tólf leikjum.
Edon Osmani kom inn á á 74. mínútu og það tók hann ekki nema þrjár mínútur að setja mark sitt á leikinn. Þá sóttu Keflvíkingar inn í teig Fylkis, Viktor Andri Hafþórsson sendi boltann inn í markteiginn þar sem Ásgeir Páll Magnússon rétt missti af boltanum en Edon var réttur maður á réttum stað og setti hann í netið (77').
Fleira markvertt gerðist ekki og liðin skildu jöfn, Keflavík situr því áfram í neðsta sæti deildarinnar með átta stig.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, ræddi við Erni Bjarnason eftir leik sem má sjá í spilaranum hér að neðan og myndasafn er neðst á síðunni.