Keflvíkingar voru mun betra liðið
Keflvíkingar eru VISA bikarmeistarar eftir 2-0 sigur á KR í úrslitaleik bikarkeppninnar sem fram fór á Laugardalsvelli í dag. Keflavík var mun sterkara liðið í leiknum og hefðu vel getað bætt við 3-4 mörkum til viðbótar en mörkin frá Guðjóni Árna og Baldri dugðu til sigurs. Guðjón kom Keflavík í 1-0 á 21. mínútu leiksins og Baldur bætti um betur, 2-0, á 30. mínútu. Þetta var fjórði bikarmeistaratitill Keflvíkinga.
Ekki leið á löngu uns Keflvíkingar gerðu sig líklega við KR-markið þegar Símun Samuelsen renndi boltanum í gegnum teiginn en þar var enginn Keflvíkingur svo KR-ingar náðu að hreinsa frá.
Á níundu mínútu komst Magnús Þorsteinsson í gegnum KR-vörnina en var felldur í teignum, Jóhannes Valgeirsson dómari leiksins, sá ekkert athugavert við brotið og lét leikinn halda áfram.
Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn fóru Keflvíkingar að ná betri tökum á leiknum. KR hélt sig aftarlega á vellinum og leyfðu Keflvíkingum að vera mikið með boltann. Það virtist leggjast vel í Keflvíkinga sem sköpuðu sér hvert færið á fætur öðru. Vörn vesturbæinga gaf sig svo á 21. mínútu. Þá tóku Keflvíkingar sína fyrstu hornspyrnu í leiknum, fyrirliðinn Guðmundur spyrnti knettinum fyrir markið, Þórarinn Kristjánsson áframsendi hann í teiginn á kollinn á Guðjóni Árna sem skallaði boltann í netið við gríðarlegan fögnuð liðsfélaga sinna og áhangenda Keflavíkur sem fjölmenntu á leikinn. Keflavík 1-0 KR.
Þvert á það sem búast mætti við, að KR myndi herða róðurinn í sókninni eftir að hafa orðið 1-0 undir þá voru það Keflvíkingar sem héldu stórárás sinni áfram á KR-markið. Aðeins níu mínútum eftir að Keflvíkingar komust í 1-0 var önnur hornspyrna hjá Keflavík. KR-ingar sendu knöttinn úr teignum og aftur út á kant þar sem Guðmundur Steinarsson náði að senda boltann aftur inn í teig og aftur var það Guðjón Árni sem framlengdi boltann í teiginn og á Baldur Sigurðsson sem þrumaði knettinum upp í þaknetið og kom Keflavík í 2-0. Mývetningurinn harði fagnaði markinu ákaflega og KR-ingar vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið.
Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks reyndu KR-ingar árangurslítið að sækja og var Keflavíkurvörnin þétt fyrir og virtist eiga svör við vel flestum aðgerðum KR. Liðin gengu því til leikhlés í stöðunni 2-0 Keflavík í vil.
KR-ingar komu grimmir til síðari hálfleiks og virtust vera að taka völdin á fyrstu mínútunum en það tóku Keflvíkingar ekki í mál. Á 52. mínútu fékk Kenneth Gustafsson fína stungusendingu inn fyrir KR vörnina frá Magnúsi Þorsteinssyni og var hann kominn í gott færi en skaut langt framhjá.
Keflvíkingar ætluðu sér aldrei að hleypa KR inn í leikinn og héldu áfram að sækja af krafti og á 66. mínútu kom Branislav Milicevic inn á hjá Keflavík fyrir Magnús Þorsteinsson. Branislav kom ferskur inn í leikinn hjá Keflavík og átti nokkrar fínar rispur upp vinstri kantinn sem sköpuðu nokkrum sinnum hættu.
Ekki vantaði færin í síðari hálfleik, bæði Keflavík og KR fengu ákjósanleg færi til þess að bæta við mörkum en Ómar Jóhannsson og Kristján Finnbogason, markverðir liðanna, neituðu að sækja tuðruna í netmöskvana í síðari hálfleik og vörðu eins og berserkir.
Leiknum lauk því með 2-0 sigri Keflavíkur og fögnuðu stuðningsmenn og leikmenn liðsins vel og lengi þessum fjórða bikarmeistaratitli félagsins. Aðstæðurnar á Laugardalsvelli í dag voru frábærar, gott veður, góður leikur og fín dómgæsla. Fyrir sigurinn í keppninni fengu Keflvíkingar eina milljón króna í verðlaunafé frá VISA á Íslandi og var það forsætisráðherrann, Geir H. Haarde, sem afhenti Guðmundi Steinarssyni, fyrirliða, bikarinn góða og ætlaði allt um kolla að keyra þegar Guðmundur hóf bikarinn á loft.
Byrjunarlið Keflavíkur í dag:
Ómar Jóhannsson, markvörður, Hallgrímur Jónasson, Kenneth Gustafsson, Guðmundur Mete, Guðjón Árni Antoníusson, Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen, Magnús Þorsteinsson, Þórarinn Kristjánsson og Guðmundur Steinarsson.
Þeir Stefán Örn Arnarson, Branislav Milicevic og Ólafur Jón Jónsson komu allir inn á sem varamenn í Keflavíkurliðinu.
Til hamingju Keflvíkingar
VF-myndir/ Þorgils Jónsson