Íþróttir

Keflvíkingar völtuðu yfir granna sína
Mánudagur 28. nóvember 2011 kl. 21:37

Keflvíkingar völtuðu yfir granna sína

Keflvíkingar eru komnir í undanúrslit Lengjubikars karla í körfubolta eftir 94-74 sigur á grönnum sínum í Njarðvík. Lengi vel var leikurinn fremur jafn en Keflvíkingar kláruðu leikinn endanlega í 4. leikhluta þar sem þeir skoruðu 33 stig gegn 20 frá Njarðvíkingum. Keflvíkingar sýndu mikinn karakter í leiknum og ungt lið Njarðvíkinga hreinlega bugaðist.

Erlendu leikmenn Keflvíkinga voru sjóðheitir á upphafs mínútunum og þar fór Steven Gerard fremstur í flokki. Staðan var 19-9 fyrir heimamenn þegar 1. leikhluti var hálfnaður, eftir að Magnús Gunnarsson setur niður þrist langt utan af velli. Stemningin var öll hjá þeim hvítklæddu og Njarðvíkingar tóku leikhlé til að ráða ráðum sínum. Keflvíkingar voru þó ekkert á þeim buxunum að hætta og létu öllum illum látum á báðum endum vallarins. Keflvíkingar voru að reyna nokkuð af þriggjastigaskotum en staðan var 24-15 þeim í við þegar 1. leikhluti klárast.

Keflvíkingar halda uppteknum hætti í 2. leikhluta og sóknarleikur Njarðvíkinga er á köflum vandræðalegur og nokkur skotin sem hitta ekkert nema parketið. Það var í raun undarlegt að Njarðvíkingar voru ekki lengra undan en Cameron Echols var sá eini sem virtist vera með púls.

Þegar rúmar 4 mínítur voru svo til hálfleiks þá lifnuðu þeir grænklæddu við og náðu rispu sem skilaði þeim þremur stigum á eftir Keflvíkingum, 31-28 þegar rúmar 3 mínútur voru til hálfleiks. Stúkan tók við sér Njarðvíkurmegin og ekki einu sinni troðsla frá Charlie Parker kveikti almennilega í Keflvíkingum. Staðan var 39-34 í hálfleik og leikurinn orðinn nokkuð jafn og skemmtilegur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Steven Gerard var atkvæðamikill í fyrri hálfleik en hann var með 15 stig og var að hitta vel. Jarryd Cole var með 7 sig og 8 fráköst.

Hjá Njarðvíkingum var Echols með 14 stig og Hjörtur Hrafn Einarsson var með 8 stig.

Það er ekki ofsögum sagt að Njarðvíkingar hafi byrjað með látum í seinni hálfleik en Ólafur Helgi skoraði tvær stórar körfur og kom gestunum yfir, 39-41 eftir rúmlega mínútna leik. Keflvíkingar voru þó ekki slegnir af laginu og voru fljótlega komnir yfir 47-43 en Njarðvíkingar voru þá að hitta afar illa og tóku slæm skot.

Innan skamms var þetta þó orðinn alvöru körfuboltaleikur þar sem liðin sýndu flott tilþrif og skiptust á að halda forystunni. Þegar 3. leikhluta lauk voru Keflvíkingar 61-54 yfir og munaði þar um tvo stóra þrista hjá Ragnari Albertssyni en hann og Valur Orri Valsson komu brakandi ferskir inn af bekknum. Svo setti stóri maðurinn, Almar Guðbrandsson niður afar laglegan þrist rétt áður en flautan gall.

Í lokaleikhlutanum var komin stemning í Keflvíkingana og þeir náðu 10 stiga forystu fljótlega. Charlie Parker kveikti svo í kofanum með risastórri þriggjastigakörfu úr horninu. Njarðvíkingar tóku í kjölfarið leikhlé og bekkurinn hjá Njarðvík fékk dæmda á sig tæknivillu. Parker fór á línuna og breytti stöðunni í 71-56 þegar rétt innan við 8 mínútur eru eftir af leiknum.

Það ætlaði svo allt um koll að keyra þegar að Jarryd Cole stal boltanum og tróð harkalega. Ekki bætti það úr skák að svo virtist sem að Travis Holmes hefði blokkað Parker glæsilega á spjaldið þá dæmdi dómarinn villu og Njarðvíkingar urðu alveg æfir. Þarna voru Njarðvíkingar að missa hausinn fátt sem virtist falla með þeim. Munurinn fór svo í 20 stig þegar 6 mínútur lifðu leiks og Keflvíkingar virtust vera komnir með farmiðann í hin fjögur fræknu. Munurinn var enn 20 stig, eða 82-62 þegar 3:30 voru eftir af leiknum og Njarðvíkingar reyndu að finna ráð til þess að bæta leik sinn sem var skelfilegur á þeim tíma. Það gekk ekki eftir og Keflvíkingar kafsigldu Njarðvíkingana og stráði Charlie Parker salt í sár þeirra með því að stela boltanum og bjóða áhorfendum upp á tvöfalda-aftur-á-bak-pumpu-troðslu. Niðurlæging Njarðvíkinga því alger og sannfærandi sigur Keflvíkinga að lokum.

Stigin:

Keflavík: Jarryd Cole 27/16 fráköst, Charlie Parker 23/10 fráköst/6 stolna bolta, Steven Gerard 18 stig, Ragnar Albertsson 8 stig og Valur Orri skilaði 6 stoðsendingum á 11 mínútum.

Njarðvík: Cameron Echols 24/9 fráköst, Hjörtur Hrafn 15 stig, Travis Holmes 7/10 fráköst, Ólafur Helgi 11.



Myndir: Páll Orri Pálsson - Efst má sjá Parker troða boltanum en Keflvíkingar voru duglegir í háloftunum í kvöld, fyrir miðju eru þeir Parker og Cole en þeir setti 50 stig á töfluna hjá Keflvíkingum í leiknum. Neðst er svo Travis Holmes í baráttunni en hann átti frekar dapran dag.