Keflvíkingar unnu Hauka og hafa jafnað 2-2
-úrslitaleikur viðureignarinnar í Hafnarfirði á miðvikudag. (Myndskeið og myndasafn)
Keflvíkingar gerðu sér lítið fyrir og unnu deildarmeistara Hauka í fjórða leik liðanna í 8 liða úrslitum Domino’s deildarinnar í körfubolta í TM höllinni í kvöld. Lokatölur urðu 75-72 í æsispennandi leik þar sem heimamenn voru í bílstjórasætinu megnið af leiknum. Keflvíkingar hafa unnið síðustu tvo leiki á sannfærandi hátt og hafa jafnað einvígið 2-2.
„Friðrik Ingi þjálfari er búinn að snúa dæminu algerlega við. Það er enginn grís við þetta hjá Keflavík. Þeir eru bara betra lið í þessari viðureign,“ sagði Teitur Örlygsson, sérfræðingur hjá Stöð 2 sport í útsendingu stöðvarinnar í kvöld og undir það tóku aðrir spekúlantar stöðvarinnar.
Keflvíkingar hafa sýnt mikla baráttu í síðustu leikjum og virtust nokkrum sinnum vera að stinga af en tókst það ekki. Deildarmeistararnir náðu einhvern veginn að hanga inni í leiknum en margir stuðningsmenn heimamanna voru hissa á því af hverju forysta heimamanna var ekki meiri. Vörn Keflvíkinga hefur reynst deildarmeisturunum erfið og það hefur komið vel í ljós í síðustu þremur leikjum.
Spennan var gríðarleg í lokin en þegar 2:30 mínútur voru til leiksloka var jafnt, 69-69 eftir flottan þrist frá Magnúsi Má. Bæði lið voru í vandræðum með að koma boltanum í körfuna í næstu sóknum en heimamenn náðu forystu með körfu frá Herði Axel þegar 36 sek. voru til leiksloka. Hann komst aftur á vítalínuna í næstu sókn og bætti við tveimur stigum og innsiglaði nokkurn veginn sigurinn þá. Christian Dion Jones bætti þó við tveimur stigum úr vítaskotum og Haukar náðu einni körfu áður en flautan gall. Magnaður sigur heimmanna í mjög jöfnum leik.
Haukar unnu fyrsta leikinn örugglega og fátt benti til að Keflvíkingar væru að fara að ógna Hafnfirðingunum. Í öðrum leiknum gerðust magnaðir hlutir þegar Kári Jónsson skoraði 6 stig á síðustu 3 sekúndunum og stal sigrinum af bítlabæjarliðinu. Keflvíkingar mættu svo í fjörðinn og tóku þriðja leikinn gegn öllum spám sérfræðinga og fylgdu því eftir með mögnuðum sigri í þessari fjórðu viðureign.
„Það er ekki að sjá að hér eru lið númer eitt og átta í deildarkeppnni. Keflvíkingar eru bara að spila betur núna og eru allt annað lið en þeir sýndu fyrir mánuði síðan,“ sagði Hermann Hauksson, sérfræðingur hjá Stöð2 sport.
Keflavík-Haukar 75-72 (20-23, 22-15, 15-17, 18-17)
Keflavík: Christian Dion Jones 20/9 fráköst/5 stoðsendingar, Hörður Axel Vilhjálmsson 18/6 fráköst, Magnús Már Traustason 12, Guðmundur Jónsson 11/5 fráköst, Daði Lár Jónsson 5, Reggie Dupree 5/4 fráköst, Ragnar Örn Bragason 2, Dominique Elliott 2, Andri Daníelsson 0, Andrés Kristleifsson 0, Ágúst Orrason 0, Davíð Páll Hermannsson 0.
Haukar: Kári Jónsson 21/6 fráköst/5 stolnir, Paul Anthony Jones III 15/9 fráköst, Haukur Óskarsson 10/4 fráköst, Hjálmar Stefánsson 7, Breki Gylfason 7, Finnur Atli Magnússon 6/7 fráköst, Emil Barja 4/4 fráköst, Kristján Leifur Sverrisson 2, Alex Rafn Guðlaugsson 0, Arnór Bjarki Ívarsson 0, Óskar Már Óskarsson 0, Hilmar Pétursson 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson, Davíð Kristján Hreiðarsson.
Hilmar Bragi tók meðfylgjandi myndir og myndskeið í þessum magnaða leik í kvöld.