Keflvíkingar tryggðu stöðu sína á toppnum í spennuleik
Keflvíkingar eru með fjögurra stiga forystu í Iceland Express-deild kvenna í körfubolta eftir nauman sigur á grönnum sínum úr Njarðvík nú fyrir stuttu. Lokatölur urðu 68-66 Keflvíkingum í vil en leikurinn var jafn og hin mesta skemmtun allt frá upphafi.
Njarðvíkingar byrjuðu heldur betur og fljótlega var staðan orðin 2-5 fyrir gestina grænklæddu og Falur Harðarson tók leikhlé þegar 3 og hálf mínúta var liðin af leiknum. Lele Hardy setti svo niður þriggja stiga körfu af löngu færi og jók muninn í 2-8 en Keflvíkingar svöruðu að bragði.
Njarðvíkurstúlkur voru sprækar í sókninni og þegar að 4 mínútur voru til loka fyrsta leikhluta var staðan 7-15 þeim í vil. Ekki voru þær síðri í vörninni og staðan var 7-19 innan skamms enda mikil barátta í liðinu. Keflvíkingar áttu í erfiðleikum í sókninni og það sést kannski best á því að ekki náðu þær að koma tug stiga á töfluna. Staðan var 9-21 fyrir gestina frá Njarðvík í lok fyrsta leikhluta.
Keflvíkingar komu með nýtt hugarfar í annan leikhluta og pressuðu stíft allan völlinn. Það virtist riðla leik Njarðvíkinga og þær gerðu sig sekar um klaufaleg mistök í gríð og erg. Nýji erlendi leikmaður Keflvíkinga, Eboni Mangum, fór fyrir liðinu í sókinni og staðan var 17-21 þegar að rúmar 3 mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta og Njarðvíkingar ekki komnir á blað í leikhlutanum. Allur kraftur virtist úr þeim og Keflvíkingar komnir á skrið. Eins og sóknarleikurinn var Njarðvíkingum auðveldur í fyrsta leikhluta þá var hann þeim jafn erfiður í leikhluta númer tvö.
Þó komu tvær körfur í röð frá þeim grænklæddu þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður og þær leiddu 21-26 þegar að fjórar mínútur voru til hálfleiks. Munurinn fór síðan í þrjú stig áður en Petrúnella Skúladóttir setti niður þriggja stiga körfu af dýrari gerðinni en hún var drjúg fyrir utan að vanda. Keflvíkingar voru hins vegar komnir í stuð og svöruðu jafn óðum. Pálína Gunnlaugsdóttir jafnaði svo loks leikinn þegar að 50 sekúndur lifðu af hálfleiknum. Eboni Mangum kom heimamönnum yfir skömmu síðar og Keflvíkingar leiddu með tveimur stigum, 33-31 í hálfleik þrátt fyrir erfiða fæðingu í fyrsta leikhluta.
Hjá Keflvíkingum var nýji leikmaðurinn, Eboni Mangum með 13 stig í hálfleik líkt og Jaleesa Butler sem bætti við 8 fráköstum. Petrúnella Skúladótitir var sjóðheit fyrir utan línuna og var komin með fjórar þriggja stiga körfur í hálfleik og 16 stig. Lele Hardy var komin með 10 fráköst.
Strax var ljóst í upphafi síðari hálfleiks að um alvöru körfuboltaleik væri að ræða og upphafsmínúturnar voru hin mesta skemmtun. Þegar að þriðji leikhluti var hálfnaður var staðan 42-40 Keflvíkingum í vil. Lele Hardy jafnaði síðan leikinn og fékk villu að auki og neisti virtist hafa kviknað hjá þeim grænu. Birna Valgarðsdóttir sýndi svo frábær varnartilþrif þegar að hún varði skot Petrúnellu Skúladóttur nánast upp í stúku skömmu síðar. Petrúnella var ekki lengi að borga fyrir það og smellti niður einum þrist og kom Njarðvík yfir 42-45. Leikurinn var hins vegar hnífjafn og þegar aðeins síðasti leikhlutinn var óleikinn var munurinn aðeins eitt stig. Njarðvík hafði forystu, 48-49.
Lele Hardy setti niður langskot og jók muninn strax í fyrstu sókn en Pálína stal boltanum og brunaði alla leið og skoraði fyrir Keflvíkinga. Birna Valgarðsdóttir jafnaði svo í næstu sókn og hiti að færast í leikinn því skömmu síðar fékk Birna dæmda á sig ásetningsvillu. Liðin skiptust svo á að skora og Lovísa Falsdóttir kom Keflvíkingum yfir með þriggja stiga körfu, 57-55. Lukkan virtist vera á bandi Petrúnellu í kvöld því hún gerði sér lítið fyrir og setti eina þriggja stiga niður af kantinum með því að nota spjaldið og Njarðvíkingar leiddu með tveim þegar fjórar mínútur voru eftir.
Pálína jafnaði fyrir Keflvíkinga út tveimur vítaskotum og jafnt var á öllum tölum áfram. Lele Hardy fór á línuna eftir að Butler fékk sína fimmtu villu og Njarðvík leiddi með tveimur stigum þegar rétt tæpar tvær mínutur voru eftir. Lovísa Falsdóttir jafnaði leikinn og Pálína kom Keflvíkingum yfir skömmu síðar eftir að hún hafði stolið enn einum boltanum.
Leikhlé var svo tekið þegar að 56 sekúndur lifðu leiks. Shenea Baker-Brice jafnaði leikinn fyrir Njarðvík áður en Hrund Jóhannsdóttir kom Keflvíkingum aftur yfir. Annað leikhlé og einungis 24 sekúndur eftir. Njarðvíkingar fundu enga glufu á vörn Keflvíkinga í lokasókninni og heimamenn lönduðu sigrinum 68-66.
Stigin:
Keflavík: Eboni Monique Mangum 21/4 fráköst/9 stoðsendingar, Pálína Gunnlaugsdóttir 17/7 stolnir, Jaleesa Butler 8/15 fráköst/3 varin skot, Hrund Jóhannsdóttir 6, Lovísa Falsdóttir 5, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 5/8 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 4/5 fráköst, Helga Hallgrímsdóttir 2/5 fráköst
Njarðvík: Petrúnella Skúladóttir 22/4 fráköst, Lele Hardy 19/22 fráköst/5 stoðsendingar, Shanae Baker-Brice 15/9 fráköst/6 stoðsendingar, Salbjörg Sævarsdóttir 6/9 fráköst, Ólöf Helga Pálsdóttir 2, Harpa Hallgrímsdóttir 2
Eboni Monique Mangum (efri mynd) skorar gegn Njarðvík í sínum fyrsta leik með Keflavík. Lele Hardy skoraði 19 stig.