Keflvíkingar töpuðu í dramatískum leik
Keflvíkingar töpuðu í kvöld fyrir FH, 2-3, í 16-liða úrslitum VISA bikars karla í fótbolta eftir dramatískar lokamínútur þar sem Keflvíkingar reyndu að skora og ná fram framlengingu. Allt kom fyrir ekki og því eru öll Suðurnesjaliðin úr leik í VISA bikarnum í ár.
Leikurinn fór rólega af stað en þau færi sem litu dagsins ljós voru Keflvíkinga. Fyrsta alvöru færi FH kom ekki fyrr en á 36. mínútu þegar Atli Viðar Björnsson var kominn í dauðafæri en Ómar varði vel í markinu. Það má því segja að það hafi verið heldur gegn gangi leiksins þegar FH-ingar komust yfir á lokamínútu hálfleiksins með skoti frá Ólafi Páli Snorrasyni.
Síðari hálfleikurinn var töluvert fjörugri en sá fyrri og ljóst að bæði lið ætluðu sér áfram í áttaliða úrslitin. Eftir um fimm mínútna leik átti Guðmundur Steinarsson, leikmaður Keflavíkur, glæsilegt skot úr aukaspyrnu rétt fyrir utan teig en boltinn sveif rétt yfir slánna. Á 71. mínútu fengu Keflvíkingar dæmda á sig vítaspyrnu eftir að Guðjón Árni dró Atla Guðnason niður í teignum. Tommy Nielsen tók spyrnuna og skoraði af öryggi. Staðan því orðin 0-2 og stuðningsmenn Keflvíkinga orðnir órólegir. Heimamenn létu engan bilbug á sér finna þrátt fyrir að vera tveim mörkum undir og blésu til mikillar sóknar. Á 76. mínútu skoraði Paul McShane fyrsta mark Keflvíkinga. Fjórum mínútum síðar skallaði Atli Guðnason knettinum í netið á hinum enda vallarins og kom FH í 1-3. Keflvíkingar ætluðu greinilega ekki að leggja árar í bát og héldu áfram að sækja af miklum krafti. Eftir fimm mínútna spil komu þeir boltanum í netið og var þar á ferðinni Haraldur Freyr Guðmundsson með glæsilegan skalla yfir Gunnleif í marki gestanna. Síðustu mínúturnar voru mjög dramatískar þegar nánast einstefna ríkti á vellinum í átt að marki FH. En þrátt fyrir mikinn baráttuanda á lokamínútunum og frábær sóknartilþrif vildi boltinn ekki inn og því var staðan enn 2-3 þegar dómarinn flautaði til leiksloka. Keflvíkingar eru því, líkt og Grindvíkingar, úr leik í VISA-bikarnum í ár.
Næsti leikur Keflavíkur er gegn Val á Vodafonevellinum sunnudaginn 27. júní og hefst hann klukkan 16:00.
Víkurfréttamyndir / Sölvi Logason
.