Keflvíkingar töpuðu heima gegn Fylki
Keflvíkingar töpuðu 0-2 gegn Fylki á heimavelli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Leikurinn var litaður af baráttu en rokið setti óneitanlega svip sinn á spilamennsku leikmanna.
Keflvíkingar léku undan vindi í fyrri hálfleik og virtust vera sprækari aðilinn í leiknum á fyrri 45 mínútunum. Þeir voru ansi hreint nærri því að ná forystu. Í síðari hálfleik snerist taflið svo algerlega við og þeir appelsínugulklæddu tóku öll völd á vellinum.
Mörk Fylkismanna komu þó ekki fyrr en undir lokin en oft þurfti Ómar Jóhannsson markvörður Keflvíkinga að taka á honum stóra sínum í leiknum. Hann ásamt Einari Orra Einarssyni stóðu sig hvað best hjá heimamönnum í kvöld.