Keflvíkingar töpuðu gegn ÍA – Þrjú rauð spjöld á Keflavík
Keflvíkingar töpuðu í gærkvöldi 2-0 gegn Skagamönnum í Lengjubikarnum í fótbolta. Fyrir leikinn var ljóst að hvorugt liðið átti möguleika á að komast áfram úr riðlinum en leikið var í Akraneshöllinni.
Skagamenn skoruðu bæði mörkin í fyrri hálfleik en seinna markið var úr vítaspyrnu. Brynjar Örn Guðmundsson, Keflvíkingur, fékk vítaspyrnuna dæmda á sig og fékk að auki að líta rauða spjaldið fyrir að ræna upplögðu marktækifæri. Skagamenn voru því í vænlegri stöðu, manni fleiri, og voru með leikinn í sínum höndum eftir þetta.
Á 73. mínútu vildu Keflvíkingar fá dæmda vítaspyrnu. Dómari leiksins, Guðmundur Ársæll Guðmundsson, var þó ekki sammála og dæmdi ekkert. Við það sauð upp úr.
Haraldur Freyr Guðmundsson mótmælti og fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Jóhann Birnir Guðmundsson fór svo sömu leið fyrir ódrengilega framkomu. Keflvíkingar luku leiknum því með átta menn á vellinum. Þrátt fyrir liðsmuninn tókst ÍA ekki að bæta við marki og úrslitin 2-0.