Keflvíkingar töpuðu eftir framlengingu í Hafnarfirði
Það var háspenna lífshætta í Schenker-höllinni í gærkvöldi þegar að Keflvíkingar sóttu Hauka heim í IE-deild karla en Haukum tókst að leggja Keflvíkinga í framlengdum leik, 73-71.
Fyrir leikinn var búist við öruggum sigri Keflavíkur en Haukar hafa þó sýnt að þeir eru sýnd veiði en ekki gefin í mörgum leikjum í vetur. Sigur fyrir Hauka gefur þeim vonar neista um að halda sæti sínu í deildinni en fátt má klikka hjá þeim ef þeir ætla sér það.
Fyrsti leikhluti hófst á hraða skjaldbökunnar. Bæði lið voru mjög varkár og ætluðu ekki að fara í neitt bull. Mikið var um mistök og skot sem ekki rötuðu rétta leið en Haukar höfðu þó frumkvæðið framan af leikhlutanum. Chris Smith fór mikinn í vörn Hauka og gerði sóknarmönnum Keflavíkur lífið leitt undir körfunni.
Haukar komust í 7-3 en Valur Orri Valsson minnkaði muninn í eitt stig með þriggja stiga körfu. Haukar náðu að vera ávallt skrefinu á undan alveg fram undir seinni hluta leikhlutans en þá kom Magnús Gunnarsson Keflavík yfir. Liðin skiptust á körfum og leikhlutinn endaði á því að Charles Parker smellti niður þriggja stiga körfu á loka sekúndum leikhlutans og Keflavík leiddi með fimm stigum 17-22.
Steinar Aronsson minnkaði muninn strax í upphafi annars leikhluta með þriggja stiga körfu en Keflavík var komið sex stigum yfir, 20-23. Keflavík spilaði svæðisvörn og virtist hún virka vel gegn Hafnfirðingum sem voru ekki að finna körfuna og sættu sig við slök skot á síðustu andartökum skotklukkunnar. Á meðan fundu Keflvíkingar sig vel enda stemningin með þeim. Keflavík breytti muninum í 20-29 og svo 24-39.
Haukar tóku leikhlé og náðu að fríska upp á stöðuna áður en leikhlutanum lauk en Keflavík leiddi þó með 11 stigum þegar leikhlutinn var úti og ljóst að Haukar þyrftu að girða í brók ef þeir ætluðu að vera með í þessum leik.
Sama var uppi á teningnum í upphafi þriðja leikhluta það er að Keflavík hélt Haukum í þægilegu forskoti frá sér og náði að keyra muninn upp í 15 stig mest. Um miðbik hans fóru Haukar hins vegar að spila körfubolta og nöguðu mun Keflavíkur niður. Svæðisvörn gestanna var ekki að skila jafn góðum árangri og í fyrri hálfleik og skiptu þeir yfir í maður á mann.
Haukar náðu að gera þetta aftur að leik og skyndilega var þetta orðið jafnt og spennandi. Munurinn var aðeins eitt til þrjú stig það sem eftir lifði leikhlutans og í raun var fjórði leikhluti þannig einnig. Keflavík leiddi með einu stigi eftir þriðja leikhluta 52-53 en Haukar unnu leikhlutann 22-12.
Fjórði leikhluti var jafn og spennandi alveg til loka hans og sýndu bæði lið flotta tilburði á báðum endum vallarins. Stór skot komu frá báðum liðum og varnir þeirra voru þéttar. Má segja að vörn hafi verið í lykil hlutverki í fjórða leikhluta því aðeins 21 stig litu dagsins ljós í leikhlutanum samanlagt frá báðum liðum.
Keflavík leiddi með einu stigi þegar 27 sekúndur lifðu leiks og Haukar áttu boltann. Haukar náðu skoti að körfunni áður en skotklukkan rann út, náðu frákastinu og brotið var á Chris Smith þegar aðeins 0,7 sekúndur lifðu leiks. Smith fór á línuna og hitti úr öðru skotinu. Hann klikkaði úr seinna skotinu, náði frákastinu og kom skoti að körfunni sem geigaði og framlengja þurfti leikinn.
Framlengingin var svo sannarlega framlenging af fjórða leikhluta því hún spilaðist nákvæmlega eins og leikhlutinn hafði þróast. Munurinn var þetta eitt til þrjú stig en undir lokin voru það Haukar sem að stóðu uppi sem sigurvegarar og sýndu það loksins að þeir geta unnið spennu leiki. Það hefur verið löstur Haukamanna sem hafa brotnað á ögurstundi í vetur en nú stóðust þeir áskorunina og skiluðu af sér flottum leik.
Emil Barja var frábær í liði Hauka á báðum endum vallarins og gerði 23 stig og tók 5 fráköst. Hayward Fain var honum næstur með 13 stig og 10 fráköst og Christopher Smith gerði 12 stig og tók 9 fráköst.
Hjá Keflavík var Jarryd Cole með 22 stig og 7 fráköst og Magnús Þór Gunnarsson gerði 14 stig.
Keflavík: Jarryd Cole 22/7 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 14, Kristoffer Douse 11/6 fráköst, Charles Michael Parker 9/13 fráköst/6 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 6, Almar Stefán Guðbrandsson 4, Halldór Örn Halldórsson 3, Ragnar Gerald Albertsson 2
Karfan.is