Keflvíkingar taka á móti Fjölni í kvöld
Ókeypis súpa og frítt inn fyrir þá sem mæta í Keflavíkurfatnaði
Lánlausir Keflvíkingar taka á móti spútnikliði Fjölnis í 15. umferð Pepsí deildar karla í kvöld en leikið er á Nettóvellinum. Ókeypis er á leikinn í boði HS Orku.
Keflvíkingar þurfa sem fyrr nauðsynlega á stigum að halda en nú eru heil 8 stig í næsta lið á undan og 9 stig og 15 mörk 10. sætið sem forðar þeim frá falli í 1. deild. Aðeins eru 8 umferðir eftir með leik kvöldsins meðtöldum og því 24 stig í pottinum góða.
Tölfræðilega eru því ennþá ágætar líkur á því að margt geti skeð á þessum tíma en aftur á móti er erfitt að ímynda sér að lið sem hefur aðeins fengið 5 stig það sem af er sumri snúa við blaðinu á þessum tímapunkti.
Fjölnismenn hafa aftur á móti spilað gott mót og sitja í 5. sæti deildarinar og eru í baráttunni um að spila í Evrópukeppni næsta sumar. Liðið lagði KR-inga í síðustu umferð og má búast við að Grafarvogspiltar komi fullir sjálfstrausts inn í leik kvöldsins.
Keflvíkingar ætla að bjóða öllum sem mæta í Keflavíkurfatnaði ókeypis á leikinn í kvöld auk þess að sem að súpa verður gefin frá kl. 18:00 við íþróttahúsið við Sunnubraut á meðan birgðir endast.
Fleiri leikir eru á dagskránni í kvöld í Pepsí deildinni en þá lýkur 15. umferð Íslandsmótsins með fjórum leikjum.
19:15 ÍA-FH (Norðurálsvöllurinn)
19:15 Keflavík-Fjölnir (Nettóvöllurinn)
19:15 Valur-Breiðablik (Laugardalsvöllur)
19:15 KR-Fylkir (Alvogenvöllurinn)