Keflvíkingar taka á móti FH í kvöld
- Allt sem þú þarft að vita um toppslaginn
Í kvöld fer fram stórleikur í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, þegar FH-ingar mæta í heimsókn á Nettóvöllinn. Fyrir leikinn eru Keflvíkingar í 3. sæti deildarinnar með 9 stig en FH-ingar eru í 1.-2. sæti með 10 stig. Keflvíkingar hafa tekið saman ýmsar staðreyndir um viðureignir liðanna í gegnum árin en þær má sjá hér að neðan. Við vekjum athygli á því að leikurinn hefst kl. 20:00 en hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Efsta deild
Keflavík og FH hafa leikið 48 leiki í efstu deild, fyrst árið 1975. Keflavík hefur unnið 10 leiki, FH hefur unnið 23 leiki en jafntefli hefur orðið í 15 leikjum. Markatalan er 61-83, FH-ingum í vil. Stærsti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna er 6-1 sigur árið 1976 en stærstu töpin gegn FH komu árið 1993 þegar FH vann 5-1 í Hafnarfirði og í fyrra unnu FH-ingar 4-0 sigur á heimavelli Keflvíkinga. Mesti markaleikur liðanna var á Kaplakrikavelli árið 2010 þegar FH vann 5-3. Tveir leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn FH í efstu deild; Magnús Þorsteinsson hefur skorað fimm mörk og Jóhann B. Guðmundsson eitt mark. Það er einmitt Magnús sem hefur gert flest mörk fyrir Keflavík gegn FH í efstu deild.
Bikarkeppnin
Liðin hafa einnig mæst tíu sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1972 en síðast í fyrrasumar. Bæði lið hafa unnið fimm leiki en einum lauk með jafntefli. Markatalan er 17-13 fyrir Keflavík. Haraldur Freyr Guðmundsson hefur gert tvö bikarmörk gegn FH-ingum.
Í fyrra
Liðin léku að sjálfsögðu tvisvar í Pepsi-deildinni síðasta sumar. Þá vann FH 2-1 á heimavelli sínum í Kaplakrika þar sem Marjan Jugovic skoraði fyrir Keflavík en Atli Viðar Björnsson og Albert Brynjar Ingason gerðu mörk FH. Seinn leiknum á Nettóvellinum lauk síðan með 4-0 sigri FH en þar gerði Atli Viðar Björnsson tvö mörk og Björn Daníel Sverrisson eitt en eitt markið var sjálfsmark.
Bæði lið
Nokkur tengsl hafa verið milli Keflavíkur og FH í gegnum árin og nú leika tveir fyrrverandi leikmenn Keflvíkinga með FH-ingum, þeir Hólmar Örn Rúnarsson og Guðjón Árni Antoníusson. Þess má geta að Albert Guðmundsson og sonur hans Ingi Björn þjálfuðu bæði liðin á sínum tíma. Meðal annarra leikmanna sem hafa leikið fyrir bæði liðin eru Gunnleifur Gunnleifsson, Alen Sutej, Þorsteinn Bjarnason, Jón Þorgrímur Stefánsson, Kristján Hilmarsson, Valþór Sigþórsson og bræðurnir Daníel og Grétar Einarssynir.
Síðustu leikir
Úrslit í leikjum Keflavíkur og FH í Keflavík hafa orðið þessi undanfarin ár:
2013 Keflavík - FH 0-4
2012 Keflavík - FH 2-4 Guðmundur Steinarsson, Arnór Ingvi Traustason
2011 Keflavík - FH 1-1 Grétar Hjartarson
2010 Keflavík - FH 1-1 Guðmundur Steinarsson
2009 Keflavík - FH 1-0 Hólmar Örn Rúnarsson
2008 Keflavík - FH 1-0 Magnús Þorsteinsson
2007 Keflavík - FH 1-2 Símun Samuelsen
2006 Keflavík - FH 2-1 Baldur Sigurðsson 2
2005 Keflavík - FH 0-3
2004 Keflavík - FH 0- 1