Keflvíkingar styrktu Hjört og fjölskyldu
Herrakvöld Knattspyrnudeildar Keflavíkur fór fram 21. mars og var vel sótt. Á kvöldinu var boðinn upp bolti sem allir leikmenn meistaraflokks karla höfðu áritað. Andvirðið rann til Hjartar Fjeldsted, fyrrum leikmanns Keflavíkur, og fjölskyldu hans. Stefán Sölvi, sonur Hjartar og Huldu Óskar Jónsdóttur eiginkonu hans, hefur glímt við erfið veikindi en erfitt hefur reynst að greina ástæður þeirra. Með þessu framlagi vildu Knattspyrnudeild og leikmenn meistaraflokks styrkja þau hjón á erfiðum tímum og sýna þeim um leið samhug.
Hjörtur er fæddur árið 1980 og eftir að hafa leikið með yngri flokkum Keflavíkur lék hann með meistaraflokki okkar á árunum 1997 til 2004. Hann lék á sínum tíma 27 leiki fyrir Keflavík í efstu deild og alls 68 leiki með meistaraflokki. Hjörtur skoraði reyndar aðeins eitt mark í þessum leikjum enda lék hann yfirleitt aftarlega á vellinum. Hann lék einnig með Skallagrími og ÍR en á árunum 2004 til 2011 lék Hjörtur með Reyni Sandgerði. Alls lék Hjörtur rúmlega 200 leiki í deild og bikar og skoraði í þeim fjögur mörk. Hann lék einnig nokkra leiki með U-17 ára landsliði Íslands á árunum 1996 og 1997.
Þess má geta að Hulda Ósk lék með sameiginlegu liði Keflavíkur, Reynis og Víðis á árunum 1999 til 2003 en áður hafði hún leikið með Reyni.
Á Herrakvöldinu var einnig boðinn upp bolti sem Íslandsmeistarar Keflavíkur árið 1964 árituðu en þeir fjölmenntu á herrakvöldið. Á þessu ári eru einmitt 50 ár frá þessum fyrsta Íslandsmeistaratitli Keflavíkur.
Á myndinni með fréttinni eru Hjörtur og Magnús Sverrir með boltann góða.