Keflvíkingar sterkari á lokasprettinum í skemmtilegum leik
Keflvíkingar sigruðu granna sína í Grindavík í kvöld með 109 stigum gegn 92 í fjörugum og kaflaskiptum leik. Eftir sigurinn í kvöld eru Keflvíkingar enn á toppi Intersport-deildarinnar með 30 stig en Snæfell fylgir fast á hæla þeirra með 28 stig eftir sigur á Njarðvíkingum.
Keflvíkingar hófu leikinn af krafti í Röstinni og komust í 4-17 en heimamenn sáu að sér og skoruðu 20-0 á næsta kafla og breyttu stöðunni í 24-17 og þar gerði Jeffrey Boschee gæfumuninn með þremur þriggjastigakörfum í röð. Gestirnir bitu þó frá sér í lokin og staðan 23-26 fyrir Keflavík í lok 1. leikhluta.
Heimamenn byrjuðu 2. leikhluta vel og skoruðu 7-0 og staðan þá 30-26, Sverrir Þór Sverrisson fékk sína þriðju villu í liði Keflavíkur þegar einungis tvær mínútur voru liðnar af 2. leikhluta og þurfti því að heimsækja tréverkið. Vítanýting beggja liða var afleit og þess má geta að Gunnar Einarsson brenndi af fjórum vítum í röð og tvö skotanna hittu ekki körfuna en Gunnar þykir afbragðs skotmaður. Annar leikhlutinn var hnífjafn og liðin skiptust á að hafa forystuna en á þessum kafla léku bæði lið svæðisvörn og Keflvíkingar oft á tíðum í vandræðum sóknarlega. Jeffrey Boschee fékk sínu fjórðu villu í leikhlutanum en það fékk ekki á Grindvíkinga sem héldu til hálfleiks með þriggja stiga forystu 55-52.
Eftir leikhlé kom Magnús Gunnarsson heitur inn og gerði tvær þriggjastigakörfur í röð og kom Keflvíkingum yfir 57-60. Liðin héldu áfram að skiptast á forystunni og nokkur glæsileg tilþrif litu dagsins ljós. Elentínus Margeirsson var Grindvíkingum skeinuhættur og spilaði af miklum dugnaði en Sverrir Þór Sverrisson gerði síðustu stig leikhlutans og kom Keflvíkingum í 77-81.
Fjórði og síðasti leikhlutinn var jafn framan af en þegar um 4 mínútur voru til leiksloka brutu Keflvíkingar ísinn og stungu Grindvíkinga af. Í stöðunni 85-94 fyrir Keflavík tók Einar Einarsson, þjálfari Grindvíkinga, leikhlé en það dugði ekki til fyrir Grindavík og Keflvíkingar léku á alls oddi og sigruðu eins og áður getur 92-109.
Sverrir Þór Sverrisson, leikmaður Keflavíkur, var sáttur í leikslok. „Þessir Suðurnesjaleikir eru alltaf hörkuleikir og við spiluðum á mörgum leikmönnum og áttum því nóg eftir í leikslok og það gerði gæfumuninn. Nú er hver leikur orðinn mjög mikilvægur en ég trúi því að Grindvíkingar klifri ofar í töfluna áður en úrslitakeppnin skellur á,“ sagði Sverrir að lokum.
VF-myndir/ Hilmar Bragi