Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflvíkingar slógu Skagamenn út úr Mjólkurbikarnum
Valur Þór Hákonarson gulltryggir sigur Keflvíkinga í kvöld. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 16. maí 2024 kl. 23:24

Keflvíkingar slógu Skagamenn út úr Mjólkurbikarnum

Keflvíkingar eru komnir í átta liða úrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu eftir 3:1 sigur á ÍA.

Skagamenn komust yfir á 4. mínútu en Keflvíkingar létu það ekki slá sig út af laginu og eftir klaufagang í öftustu línu ÍA fékk Keflavík víti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árni Marínó Einarsson, markvörður Skagamanna, var með boltann í höndunum og ætlaði að leggja hann fyrir fætur varnarmanns. Sami Kamel, besti maður Keflavíkur í dag, pressaði og fát kom á Árna sem ætlaði að hætta við en missti boltann frá sér. Kamel náði til knattarins en var felldur, víti dæmt og Erik Tobias Tangen Sandberg, varnarmaður ÍA, fékk að líta rauða spjaldið.

Sami Kamel fór á vítapunktinn og skoraði örugglega (37') og Skagamenn manni færri.

Þegar komið var í uppbótartíma fyrri hálfleiks fékk Mamadou Diaw boltann ofarlega á vinstri kanti, lék laglega á varnarmann ÍA og þegar hann var kominn upp að endamörkum átti hann góða sendingu fyrir fætur Kamel sem stýrði boltanum fagmannlega í netið (45'+2).

Þegar leið seinni hálfleik fóru Keflvíkingar að falla aftar og freista þess að halda fengnum hlut en Skagamenn voru farnir að gerast talsvert aðgangsharðir. Ásgeir Páll Magnússon átti þá góðan sprett upp kantinn og sendi boltann inn á Val Þór Hákonarson sem gerði vel þegar hann skoraði framhjá Árna Marínó úr þröngu færi (81') og virtist þar með innsigla sigurinn.

Frans sækir hér að markverði ÍA.

Frans Elvarsson var tiltölulega nýkominn inn á (75') en hann fékk ekki að vera lengi með í leiknum og fékk að líta rauða spjaldið á 86. eftir að hafa danglað í leikmann ÍA. Þá var aftur orðið jafnt í liðum en tíminn reyndist of naumur fyrir Skagamenn sem hafa því lokið leik í bikarnum.

Áfram heldur Keflavík að leika vel í bikarnum og hefur nú slegið tvö Bestu deildarlið úr leik í keppninni, fyrst Breiðablik í 32 liða úrslitum og nú Skagamenn í sextán liða.

Keflavík - ÍA (3:1) | Sextán liða úrslit Mjólkurbikars karla 16. maí 2024