Keflvíkingar semja við lykilleikmenn

Hafa auk þess bætt við sig leikmanni

Kvennalið Keflavíkur hefur undanfarið samið við nokkra af lykilleikmönnum sínum fyrir komandi ár. Auk þess hefur liðið þegar bætt við sig leikmanni en hin 18 ára Marín Laufey Davíðsdóttir hefur samið við félagið til tveggja ára. Marín Laufey, sem hefur leikið með Hamri sl. ár, er mikill baráttujaxl og mun hún koma til með að styrkja Keflavíkurliðið mikið, þá sérstaklega varnarlega og í frákastabaráttunni undir körfunni. Á nýafstaðinni leiktíð skoraði Marín Laufey 12 stig að meðaltali í leik auk þess sem hún reif niður 11 fráköst. Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins.

Þær Sandra Lind Þrastardóttir, Lovísa Falsdóttir og Katrín Fríða Jóhannsdóttir framlengdu samning sinn við félagið til tveggja ára. Sandra Lind og Lovísa léku mikilvægt hlutverk í liði Keflavíkur í vetur sem endaði í þriðja sæti Domino's deildarinnar eftir frábæra byrjun. Sandra Lind skilaði 5.5 stigum að meðaltali í leik auk þess að taka tæp 2 fráköst og þá var Lovísa með 3 stig að meðaltali og 2 fráköst. Katrín Fríða var í minna hlutverki í vetur en hefur alla burði til að auka hlutverk sitt í liðinu í framtíðinni.

Ingunn Embla Kristínardóttir skrifaði undir tveggja ára samning við Keflavík. Ingunn Embla er ein efnilegasta körfuknattleikskona landsins og átti hún mikinn þátt í velgengni liðsins á tímabilinu 2012-2013 þar sem Keflavík vann alla þá titla sem í boði voru. Á nýliðnu tímabili lék Ingunn ekki með Keflavíkurliðinu þar sem hún var ófrísk af sínu fyrsta barni sem kom í heiminn í upphafi árs.

Tvíburasysturnar Bríet Sif Hinriksdóttir og Sara Rún Hinriksdóttir framlengdu samning sinn við körfuknattleiksdeild Keflavíkur til tveggja ára. Sara Rún hefur þegar stimplað sig inn sem einn allra besti leikmaður deildarinnar en hún skoraði 16 stig og tók 5 fráköst að meðaltali í leik í vetur. Bríet Sif tók miklum framförum milli ára og jókst spilatíminn hennar talsvert en hún skoraði 5,5 stig að meðaltali.

Myndir af Keflavík.is