Keflvíkingar safna á Karólínu
Keflvíkingar hafa snúið vörn í sókn og sett af stað söfnun á Karolina fund til að styrkja rekstur körfuknattleiksdeildarinnar. Þeir gerðu mjög skemmtilegt myndband af þessu tilefni.
Á Facebook-síðu Keflvíkinga stendur:
Til að bregðast við tekjutapi höfum við ýtt úr höfn Karolinafund söfnun þar sem hægt er að styrkja okkur með hinum ýmsu leiðum. ALLIR sem styrkja tryggja sér aðgang að Upprisuhátíðinni sem Körfuknattleiksdeildin mun standa fyrir við FYRSTA tækifæri
Til sölu eru sýndarmiðar á leiki í úrslitakeppnum kvenna- og karlaliðs okkar en eins og flestir vita fór sú keppni ekki fram. Liðin í deildinni hafa staðið fyrir svipuðum sýndarmiðasölum og herma fregnir að söluhæsti sýndarleikurinn hafi náð um 2000 (ekki)áhorfendum. Við stefnum á 2500!
Þar að auki verður hægt að fjárfesta í Hraðlestarbolum og hinum veglegu Stuðningsmannabolum ef það er það sem fólki hugnast meira og að sjálfsögðu verða stærri pakkar í boði þar sem árskort á næsta tímabili fylgja með í kaupum og rúsínan í endanum er kvöldverðarboð með Keflavíkursérfræðingunum Jonna og Sævari og Keflavíkurgoðsögn þar sem Örn Garðarsson matreiðslumeistari töfrar fram veislu eins og honum einum er lagið.