Keflvíkingar rændir á heimavelli
Keflavík tapaði fyrir Stjörnunni í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu þegar leikið var á HS orkuvellinum í Keflavík í gær. Þrátt fyrir að hafa verið sterkari aðilinn í leiknum voru það Stjörnustelpur sem stálu sigrinum undir lok leiksins og fyrir vikið er Keflavík komið í fallsæti.
Keflavík lenti undir í byrjun leiks þegar Stjarnan náði hraðri sókn upp hægri kantinn, góð fyrigjöf og skallað í markið (5') – einfalt og slysalegt en vörn Keflavíkur var ekki viðbúin og sókn Stjörnunnar fékk greiða leið upp kantinn.
Keflvíkingar bættu í eftir markið og höfðu góð tök á leiknum. Þær sóttu stíft og gáfu Stjörnukonum fá tækifæri til að komast inn í leikinn. Cassandra Rohan átti m.a. skot í stöng en Keflavík gekk samt illa að skapa sér færi. Pressan skilaði Keflavík loks marki fyrir leikhlé þegar þær fengu þrjár hornspyrnur í röð og í þriðju atrennu var það Aerial Chavarin sem stökk hæst allra og skallaði í markið (37'). Staðan jöfn í hálfleik.
Það sást á Keflvíkingum strax í upphafi seinni hálfleiks að þær ætluðu sér ekkert annað en sigur í þessum leik. Keflavík sótti linnulítið að marki Stjörnunnar nánast allan síðari hálfleikinn og fengu nokkur fín færi sem vörn Stjörnunnar náði samt að verjast. Það var algerlega gegn gangi leiksins þegar Stjarnan náði skyndisókn undir lokin. Sóknin endaði með skoti sem Tiffany varði en hún hélt ekki boltanum, frákastið datt fyrir fætur sóknarmanns Stjörnunnar sem náði ágætis skoti úr frekar þröngu færi og skoraði fram hjá Tiffany (86').
Keflavík lagði allt í sóknina á lokamínútunum og var Stjarnan í nauðvörn fram á síðustu sekúndur leiksins – en hélt út og svekkjandi tap Keflavíkur því niðurstaðan (1:2).
Leikurinn var í heild ágætur hjá Keflavík sem virtist hafa hann í höndum sér. Mistök í vörninni reyndust þó dýru verði keypt á endanum en bæði mörkin sem Keflavík fékk á sig voru frekar ódýr. Sókn og miðja voru að leika vel en þó vantaði herslumuninn til að klára sóknirnar. Cassandra Rohan er öflug viðbót inn í lið Keflavíkur og fellur vel að leik liðsins. Hraði og styrkur sóknarmanna Keflavíkur er oft að valda varnarmönnum miklum vandræðum og Keflavík ætti ekki að vera í þeirri stöðu sem liðið er komið í.
Eftir ellefu umferðir er Keflavík í níunda sæti með níu stig, jafnmörg og Fylkir sem er á botni deildarinnar. Tindastóll sigraði Fylki í gær og komst af botninum og upp fyrir Keflavík með ellefu stig.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fylgdist með leiknum í gær og tók þær myndir sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.